Indriði Bogason 13.12.1911-06.09.1992

Indriði fæddist 13. desember 1911 og ólst upp á Seyðisfirði til níu ára aldurs. Foreldrar hans voru hjónin Bogi Benediktsson frá Garði í Fnjóskadal og Erlín Sigurðardóttir frá Firði í Seyðisfirði. Þegar hann var sjö ára gamall fékk hann lömunarveiki með þeim afleiðingum að annar fótur hans lamaðist. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur um 1920. Seinna hóf Indriði nám í fiðluleik hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara. Hann hélt náminu síðan áfram hjá Tónlistarskóla Reykjavíkur eftir stofnun skólans árið1930 og var einn af fyrstu 62 félagsmönnum í Félagi íslenskra hljóðfæraleikara sem stofnað var 1932.

Um tvítugt fór Indriði að vinna við bókhald, fyrst hjá Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1932. Eftir nokkurra ára starf þar, eða árið 1938, réðst hann til starfa hjá skrifstofu Verslunarmannafélags Reykjavíkur og varð þar síðan skrifstofustjóri og gegndi því starfi til ársins 1953 er hann gerðist starfsmaður Tónlistardeildar Ríkisútvarpsins sem hann gegndi til starfsloka.

Allt frá árinu 1930 lék hann í ýmsum hljómsveitum: Hljómsveit Reykjavíkur, Útvarpshljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun hennar árið 1950 þar til hann lét af störfum sjötugur að aldri. Indriði var um langt skeið helsti nótnaskrifari Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar og var eftirsóttur í því starfi.

Indriði átti gott bókasafn og las mikið. Hann lærði sjálfur dönsku, ensku og þýsku, las bækur og tímarit á þessum málum og talaði málin ágætlega. Þótt Indriði færi á eftirlaun hafði hann nóg að sýsla, fylgdist hann vel með heimsmálunum og áhugamálin voru mörg.

Þann 18. júní 1938 kvæntist Indriði Jóhönnu Ólafsdóttur frá Múlakoti á Síðu í Vestur-Skaftafellsýslu. Þau eignuðust fjögur börn, Sigríði Hjördísi. Boga Erling, Ólaf og Magnús.

Staðir

Reykjavík -

Tengt efni á öðrum vefjum

Fiðluleikari, nótnaskrifari og skrifstofustjóri

Uppfært 11.09.2015