<p>Kristinn H. Árnason hóf gítarnám hjá Gunnari H. Jónssyni í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lauk burtfararprófi árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám við Manhattan School of Music og lauk þaðan prófi árið 1987. Einnig lærði hann í Englandi hjá Gordon Crosskey og á Spáni hjá José Tomas. Á námsárum sínum lék Kristinn m.a. fyrir Hans Werner Henze, Manuel Barrueco og Andrés Segovia.</p>
<p>Kristinn hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og einnig leikið á tónleikum vestan hafs og austan, meðal annars í Wigmore Hall í London og kammersal Concertgebouw í Amsterdam, á Norðurlöndum, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Hann hefur hljóðritað fyrir hljóðvarp og sjónvarp og þegið starfslaun listamanna frá íslenska ríkinu. Kristinn hefur leikið inn á fjölda geisladiska og hlaut diskur hans með verkum eftir Sor og Ponce Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1997. Árið 2007 hlaut hann verðlaun úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.</p>
<p align="right">Sumartónleikar í Sigurjónssafni – tónleikaskrá 6. ágúst 2013.</p>
Skjöl
Tengt efni á öðrum vefjum