<p>Ari Bragi er uppalinn á Seltjarnarnesi þar sem hann hóf nám við Tónlistarskóla Seltjarnarness ungur að aldri og byrjaði að læra á klarínettu undir handleiðslu Önnu Benassi og seinna Lárusar H. Grímssonar. Hann hóf nám á trompet 9 ára gamall undir handleiðslu föður síns og svo seinna hjá Kjartani Hákonarsyni. Hann lauk miðstigi í klassískum trompetleik frá Tónlistarskóla Seltjarnarness og færði sig þá um set í Tónlistarskóla F.Í.H. Kennarar hans þar voru Eiríkur Örn Pálsson og Ásgeir H. Steingrímsson. Hann stundaði einnig einkatíma hjá Sigurði Flosasyni. Í september 2008 hóf Ari Bragi nám við New School for Jazz and Contemporary Music í New York.</p>
<p>Ari Bragi var á meðal 16 sem hlutu afreksverðlaun á 3000 manna námskeiði sumarið 2006 við hinn virta Interlochen-skóla í Michigan í Bandaríkjunum. Árið 2008 var hann fyrstur til að fá styrk úr Minningarsjóði Árna Scheving og þremur árum síðar hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum Bjartasta vonin.</p>
<p>Ari Bragi lék nýlega inná nýjustu hljómplötu saxófónleikarans Jóels Pálssonar með Eyþóri Gunnarssyni, Einari Scheving og Davíð Þór Jónssyni. Hann hefur einnig leikið í hljóðritunum með m.a. Noruh Jones, Jeff Tain Watts, Grizzly Bear, Sigur Rós, Hjaltalín og Stórsveit Reykjavíkur.</p>
<p align="right">Vefur Kirkjulistahátíðar 2013 (6. desember 2013).</p>
Hópar
Tengt efni á öðrum vefjum