Eiríkur Hauksson 04.07.1959-

Eiríkur hóf söngferil sinn þegar hann var 15 ára með ýmsum hljómsveitum. Hann valdi tónlistina fram yfir íþróttir en hann þótti afar efnilegur knattspyrnumaður. Hann er einkum þekktur fyrir söng með hljómsveitinni Start, en lag Eiríks, Sekur, var valið lag ársins 1981. Sama ár kom hann fram á plötu Gunnars Þórðarsonar Himinn og jörð og söng þar lögin Vegurinn og Íshjartað slær. Árið 1983 stofnaði hann þungarokkshljómsveitina Drýsill sem sendi frá sér eina plötu ári síðar sem heitir Welcome To The Show.

Eiríkur er þó ef til vill þekktastur fyrir tónlist í léttari kantinum en hann söng tvö afar vinsæl lög á plötunni Borgarbragur Gunnars Þórðarsonar sem kom út árið 1985 í tilefni af 200 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkurborgar. Þetta voru lögin Gaggó Vest og Gull. Þá var hann í hópi tónlistarmanna sem sungu lagið Hjálpum þeim árið 1985. Hjálparstofnun kirkjunnar gaf það út en ágóðanum var varið til byggingar fyrir munaðarlaus börn í Eþíópíu.

Um miðjan 9. áratuginn var Eiríkur einn vinsælasti söngvari landsins og kom víða fram. Hann tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 1986 og söng þar lögin Gefðu mér gaum, Mitt á milli Moskvu og Washington og Þetta gengur ekki lengur. Þetta var í fyrsta skipti sem keppnin var haldin og í fyrsta skipti sem Ísland tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Gleðibankinn, í flutningi Pálma Gunnarssonar, sigraði en síðar var ákveðið að Pálmi yrði ekki eini flytjandinn. Eiríkur bættist í hópinn ásamt Helgu Möller og saman mynduðu þau ICY hópinn sem fór til Bergen og lenti í 16. sæti. Árið 1987 tók Eiríkur aftur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með hljómsveitinni Model. Lagið hét Lífið er lag og hafnaði í 2. sæti en hljómsveitin gaf út eina plötu sem inniheldur Lífið er lag ásamt smellunum Svart og hvítt og Ástarbréf merkt X.

Árið 1988 ákvað Eiríkur að söðla um og fluttist til Noregs þar sem hann gekk til liðs við þungarokkshljómsveitina Artch sem var óþekkt á þeim tíma. Hljómsveitin gaf út tvær plötur sem hlutu báðar mikið lof gagnrýnenda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þær hétu Another Return To Church Hill og For The Sake Of Mankind. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 1993 en hefur þó komið fram stöku sinnum eftir það.

Eftir að Eiríkur flutti til Noregs fékk hann enn á ný tækifæri til að spreyta sig í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Aðstandendur norska sjónvarpsins treystu sér ekki til að halda undankeppni þar sem svo léleg lög höfðu borist í keppnina og því var leitað til nokkurra listamanna til að flytja lög. Úr varð að hópurinn Just 4 fun, sem Eiríkur var hluti af, keppti í Róm með lagið Mr. Thompson og lenti í 17. sæti.

Síðasta áratuginn hefur Eiríkur oft komið til Íslands til að syngja með gömlu félögunum og hann hefur einnig farið í tónleikaferðir með gítarleikaranum úr Thin Lizzy, Brian Robertson. Upp á síðkastið hefur hann unnið með hljómborðs- og gítarleikaranum Ken Hensley sem er þekktur fyrir vinnu sína með Uriah Heep á 8. áratugnum.

Eiríkur er kennari að mennt. Hann er enn búsettur í Noregi þar sem hann starfar við tónlist.

Tónlist.is (desember 2013).

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Þeyr Söngvari

Tengt efni á öðrum vefjum

Kennari og söngvari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 27.04.2018