Bjarki Sveinbjörnsson 03.08.1953-

Bjarki Sveinbjörnsson (f. 1953) útskrifaðist sem tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1976. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum (1979-1981) og við Aalborg Univeristet í Danmörku 1989-1998) þar sem hann lauk doktorsnámi í tónvisindum 1998. Helsta fræðasvið hans er saga íslenskrar tónlistar en doktorsritgerð hans ber heitið „Tónlist á Íslandi á 20. öld með sérstakri áherslu á upphaf og þróun elektrónískrara tónlistar á árunum 1960-90

 

Bjarki hefur mikla reynslu sem tónlistarkennari á Íslandi og í Færeyjum. Í áranna rás hefur hann kennt við grunnskóla, framhaldsskóla, tónlistarskóla auk Listaháskóla Íslands þar sem hann kennir sögu íslenskrar tónlistar. Auk þess hefur hann haldið fjölda fyrirlestra á Íslandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Hollandi, Kanada og í Bandaríkjunum.

 

Bjarki hefur unnið sem dagskrárgerðarmaður hjá ríkisútvarpinu, Rás 1 auk þess að vera tónlistarráðunautur ríkisútvarpsins á árunum 2002-2006. Vann hann sem dagskrárgerðarmaður fjölda þátta um sögu íslenskrar tónlistar.

 

Bjarki, og félagi hans, Dr. Jón Hrólfur Sigurjónsson hafa frá árinu 1997 unnið að uppbyggingu á Ísmús gagnagrunninum um íslenska tónlist og menningu (musik.is/ismus; sjá einnig musik.is). Markmið þessa verkefnis er að veita aðgang að sögu íslenskrar tónlistar á Netinu. Íslensk tónlistarhandrit (frá 1100-1800), elstu hljóðritanir gerðar á Íslandi og þjóðfræðiefni stofnunar Árna Magnússonar eru dæmi um verkefni sem þegar eru aðgengileg. Vinna þeir nú að gagnagrunni um öll orgel  og organista í íslenskum kirkjum frá upphafi. Þá vinna þeir að gagnagrunni um íslensk þjóðlög og um Tón- og listmenningu íslendinga er fluttur vestur um haf í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20.

 

Bjarki var ráðinn í janúar 2007 til að koma á fót Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi og gegndi þar forstöðu til ársins 2017 þegar safnið var flutt í Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn í Þjóðarbókhlöðu. Hann gegnir þar stöðu fagstjóra yfir Hljóð- og myndsafni. Bjarki hefur haldið fjölda fyrirlestra um íslenska tónlistarsögu bæði austan hafs og vestan, skrifað greinar um íslenska tónlistarsögu og leitast við að miðla henni sem víðast. Þá hefur hann í áranna rás einbeitt sér að söfnun heimilda um land allt, meðal annars með fjölda viðtala við einstaklinga í öllum héruðum landsins.

 

Viðtöl: Spyrill/hljóðritari

Viðtöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Tónlistarfræðingur

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 14.08.2019