Baldur Pálmason 17.12.1919-11.09.2010

Baldur fæddist í Köldukinn á Ásum 17. desember árið 1919 en ólst að mestu upp á Blönduósi. Var hann eina barn foreldra sinna, þeirra Pálma Jónassonar bónda á Álfgeirsvöllum í Skagafirði og Margrétar Kristófersdóttur frá Köldukinn.

Baldur var kvæntur eiginkonu sinni, Guðnýju Sesselju Óskarsdóttur, í fjörutíu ár en hún lést árið 1990. Seinni sambýliskona hans var Guðrún A. Jónsdóttir, en hún lést í júní 2008. Baldur var barnlaus.

Árið 1938 lauk Baldur námi við Verzlunarskóla Íslands og starfaði við bókfærslu hjá GH Melsteð. Sinnti hann þularstarfi í ígripum hjá Ríkisútvarpinu árið 1946 en í kjölfar þess tók hann við starfi fulltrúa á skrifstofu útvarpsráðs árið 1947. Annaðist Baldur lengi barnatíma, síðan kvöldvökur og tók saman bókmenntaþætti. Baldur vann hjá Ríkisútvarpinu í fjóra áratugi en lét af störfum þar árið 1981.

Skáldskapur var mikið áhugamál Baldurs en auk þess að taka saman ljóðaþætti gaf hann út bækur með eigin ljóðum. Gaf hann út ljóðabækurnar Hrafninn flýgur um aftaninn árið 1977 og Björt mey og hrein tveimur árum síðar. Árið 2000 gaf hann út bókina Á laufblaði einnar lilju til minningar um föður sinn Pálma Jónasson. Þá orti hann og þýddi söngtexta, þar á meðal „Alparósina“ við lag úr söngleiknum Söngvaseið.

Úr Andlátsfregn í Morgunblaðinu 14. september 2010, bls. 9.

Sjá einnig Íslenskir samtíðarmenn I, 63-64


Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014