Elín Matthíasdóttir Laxdal 07.12.1883-13.11.1918

Önnur söngkona sem tók virkan þátt í tónlistarlífinu í upphafi aldarinnar var Elín Matthíasdóttir skálds Jochumssonar og konu hans, Guðrúnar Runólfsdóttur frá Saurbæ á Kjalarnesi, Þórðarsonar. Hún mun fyrst hafa komið fram opinberlega 1904. Elín var fædd 1883. Hún stundaði nám við Konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn og naut til þess styrks frá sjálfum kónginum. Hún söng einsöngshlutverk í kantötu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar sem samin var fyrir konungskomuna 1907, og á tónleikum með verkum Sveinbjörns sem haldnir voru næsta ár söng hún auk þess tvö viðamikil lög eftir hann: „Árniðinn“ og „Valagilsá“. Undirleikari bæði við konungsmóttökuna og á tónleikunum var Ásta Einarsson. Elín giftist Jóni Laxdal kaupmanni og tónskáldi í Reykjavík og var önnur kona hans. Hún andaðist í spönsku veikinni 1918.

Heimild: Íslenzkar konur í tónlist. Jón Þórarinsson. Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 4.


Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014