Guðmundur Ingólfsson 5.6.1939-12.08.1991

Guðmundur Ingólfsson fæddist í Reykjavík 5. júní 1939 og aðeins sex ára gamall hóf hann píanónám hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni. Á unglingsárunum lá leið hans til Kaupmannahafnar þar sem hann hóf að læra hjá Axel Arnfjörð en námið varð hálf endasleppt og þar með lauk klassísku píanónámi Guðmundar.

Hann fór að leika á knæpum í Kaupmannahöfn en eftir að heim kom fór hann að spila með sinni fyrstu alvöru hljómsveit. Hann hlustaði mikið á djass og Nat King Cole var í miklum metum hjá Guðmundi alla tíð.

Árið 1962 hélt Guðmundur til útlanda, nú til Oslóar að leika með Sigrúnu Jónsdóttur. Í þeirri ferð og nánast fyrir tilviljun kynntist hann saxafónleikaranum Dexter Gordon og lék Guðmundur með hljómsveit hans um tíma.

Eftir Noregsævintýrið byrjaði hann að leika með Gunnari Ormslev uns hann stofnaði hljómsveitina Hauka ásamt Gunnari bróður sínum og Helga Steingrímssyni. Þá stóð Guðmundur að stofnun djassklúbbs í Glaumbæ en fyrir var djassklúbbur Reykjavíkur sem hafði aðsetur í Tjarnarbúð.

Árið 1974 hélt Guðmundur aftur til Noregs þar sem hann dvaldi í heil þrjú ár og spilaði þar um tíma með þekktum djössurum. 1977 kom hann svo alkominn aftur til Íslands og byrjaði að leika með Guðmundi Steingrímssyni á djasskvöldum í Stúdentakjallaranum og fleiri stöðum við þvílíkar undirtektir að húsfyllir var hvar sem þeir félagar léku. Pálmi Guðmundsson var fyrst með þeim á bassa en síðan ýmsir kornungir bassaleikarar. Reyndar voru þeir nafnar iðnir við að taka nýliða inn í hópinn og miðla þeim af reynslu sinni, einn slíkur var t.d. gítarleikarinn Björn Thoroddsen sem var með þeim um tíma.

Þeir sem þekkja til ferils Guðmundar staðfesta þá fullyrðingu hans sjálfs að það hafi ekki verið fyrr en eftir síðari Noregsferðina sem stíll Guðmundar hafi verið fullmótaður og má því draga þá ályktun að reynslan í þeirri ferð hafi hjálpað Guðmundi mikið hvað þetta varðaði. Þó Guðmundur Ingólfsson væri djassari í húð og hár var honum ekkert heilagt í tónlistinni. Hann tók lagið með poppurum og rokkurum ef honum sýndist svo og til marks um þetta má nefna að þeir nafnar léku inn á fyrstu sólóplötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús, en vinátta þeirra Bubba og Guðmundur varði meðan sá síðarnefndi lifði.

Þegar Guðmundur Ingólfsson lést 12. ágúst 1991 eftir harða baráttu við krabbamein, var ekki aðeins höggvið stórt skarð í raðir íslenskra djassleikara heldur líka í raðir þeirra tónlistarmanna sem unna tónlistinni að innstu hjartarót.

Tónlist.is. Bárður Örn Bárðarson.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Haukar Píanóleikari
Hljómsveit Gunnars Ormslev Píanóleikari
Hljómsveit Jakobs Jónssonar Píanóleikari

Erindi

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Lagahöfundur og píanóleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 24.08.2020