Manuela Wiesler 22.07.1955-22.12.2006

Manuela fæddist í Brasilíu árið 1955 en foreldrar hennar voru austurrískir. Hún var alin upp í Vínarborg og lauk þar flautuprófi árið 1971. Síðar stundaði hún nám í París og víðar. Hún fluttist til Íslands árið 1973 og bjó hér í um áratug. Meðal viðurkenninga sem hún hlaut voru 1. verðlaun í norrænni kammermúsíkkeppni árið 1976 og hún sló í gegn á Tónlistartvíæringnum í Kaupmannahöfn 1980. Ásamt Helgu Ingólfsdóttur semballeikara hleypti hún af stokkunum Sumartónleikum í Skálholtskirkju árið 1975 og kom þar iðulega fram, einkum í samleik með Helgu. Eftir að hún fluttist af landi brott kom hún oft fram á Sumartónleikunum og þá sem einleikari. Eftir að hún fluttist frá Íslandi bjó hún og starfaði í Svíþjóð. Árið 1985 fluttist hún til Vínarborgar þar sem hún bjó að mestu til æviloka.

Manuela kom víða fram í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndunum en líka í Þýskalandi og á heimaslóðunum í Austurríki. Hún lagði sig einkum fram um að flytja samtímaverk en helstu tónskáld Íslendinga sömdu fyrir hana tónverk auk margra erlendra tónskálda. Meðan Manúela bjó á Íslandi var hún mikil driffjöður í tónlistarlífinu hérlendis og gætti áhrifa hennar víða.

Andlátsfregn í Morgunblaðinu 23. desember 2006, bls. 60.

Manuela Wiesler flautuleikari kom hingað kornung, aðeins 18 ára gömul með þáverandi manni sínum og varð stór- kostleg vítamínsprauta fyrir íslenskt tón- listarlíf. Íslensk tónskáld kepptust við að semja fyrir hana verk og hún tók þátt í því að stofna til Sumarhátíðar í Skálholti með hugmyndasmiðnum og semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur. Ungir flautuleikarar urðu að sjálfsögðu fyrir djúpum áhrifum frá Manuelu og við búum enn að því.

Úr Morgunbalaðsgrein Ingibjargar Eyþórsdóttur: Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld Grein III: Breytt heimsmynd í kjölfar velmegunar.

Skjöl

Manuela og Helga Mynd/jpg
Manuela Wiesler Mynd/jpg
Manuela Wiesler Mynd/jpg

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.07.2015