Hilmar Skagfield 25.07.1923-14.08.2011

<p>Hægt og sígandi hverfa af sjónarsviðinu þeir Íslendingar, sem fluttu til Ameríku upp úr seinna stríðinu. Flutningur þessa fólks hefir ekki verið eins vel skráður og vesturfaranna á 19. öldinni. Það er reyndar ekki vitað, að neinar tölur þar um séu á reiðum höndum. Margir af þessum nýju vesturförum hafa reynt, eftir beztu getu, að halda í gamla landið, þótt ævinni væri eytt í útlandinu. Tækni nútímans hefir auðveldað það, og sér í lagi breytingin á lögum um ríkisborgararétt 2003, sem gaf Íslendingum, sem tekið höfðu borgararétt annars lands, kost á því að endurheimta sinn íslenzka.</p> <p>Einn af nýju vesturförunum, Hilmar S. Skagfield, hefir nú fallið frá eftir langa, giftusama og viðburðaríka ævi. Hann fór til Flórída 1950 til náms og var ætlunin að hverfa aftur heim, en ekki varð af því. Settist hann, ásamt konu sinni, Kristínu Guðmundsdóttur, að í höfuðborg Flórída, Tallahassee, og bjó þar alla sína ævi. Innan nokkurra ára voru hjónin búin að stofna tvö fyrirtæki; hún í kjólasaumi og hann í gluggatjaldaframleiðslu.</p> <p>Hilmar og Kristín unnu hörðum höndum og hægt og sígandi komust þau í góðar álnir. Atli Steinarsson, blaðamaður, skrifaði heillar opnu grein um Hilmar í Morgunblaðið l994 og var fyrirsögnin „Strákurinn frá Páfastöðum, sem varð milli í Ameríku“. En efnishyggjan yfirgnæfði ekki fjölskylduna, og þau eignuðust og ólu upp með sæmd þrjú efnileg börn.</p> <p>Hilmar var fjölhæfur maður. Meðal annars iðkaði hann tónlist á yngri árum og var allt sitt líf mikill músíkunnandi. Svo var hann iðnjöfur, sem byggði upp og rak fyrirtækið Skandia Industries með verksmiðjur í mörgum ríkjum Ameríku, og situr sonurinn Hilmar þar nú við stjórnvölinn. Líka tók hann virkan þátt í alls kyns félagslífi og var m.a. háttsettur Kiwanis-maður.</p> <p>Síðast en ekki sízt vann Hilmar ósleitilega fyrir sitt gamla heimaland og þjónaði sem ræðismaður frá 1980, og varð aðalræðismaður 1985 allt þar til hann lét af störfum 2007. Ræðismenn landsins inna af höndum mikið og óeigingjarnt starf og meðal annars eru þeir margir landarnir, sem Hilmar hefir aðstoðað og veitt hjálp á sínum langa ferli ...</p> <p align="right">Úr minningargrein 25. ágúst 2011 – sjá nánar á mbl.is.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hawaii-kvartettinn Gítarleikari 1947
Hawaii-tríóið Gítarleikari 1946-06/08 1947-09/11
Mandólínhljómsveit Reykjavíkur Gítarleikari 1943

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.05.2021