Jón Björnsson 23.02.1903-18.11.1987

<p>Þann 23. febrúar síðastliðinn varð Jón Björnsson, organisti og tónskáld frá Hafsteinsstöðum 75 ára. Fáir munu þeir menn í þjóðfélagi okkar, sem lengur hafa gegnt organistastörfum en Jón Björnsson, því að nær samfellt frá árinu 1922 hefur hann rækt þetta starf, lengst við Glaumbæjarkirkju, þá við Reynistaðarkirkju og nú sex seinustu árin einnig við Sauðárkrókskirkju, og enn er Jón organisti við kirkjur þessar allar og verður vonandi um sinn. Þá leikur hann einnig við kirkjulegar athafnir í Hvamms- og Ketukirkjum. </p> <p>Jón frá Hafsteinsstöðum hefur alla tíð verið mikill áhuga- og athafnamaður. Hann var í áratugi í hópi dugmestu bænda Skagafjarðar, en drjúgan og ef til vill drýgstan hlut í eðli hans, lífi og starfi hefur tónlistin átt. Hann stundaði ungur maður söngnám hjá sr. Geir Sæmundssyni vígslubiskup i á Akureyri og nam organleik hjá Sigurgeir Jónssyni, organista á Akureyri, og þó að þessi námstími væri ekki langur, þá notaðist hann Jóni vel og með mikilli vinsemd og virðingu minnist hann þessara merku kennara sinna. Auk starfa sinna við ofannefndar kirkjur var Jón forystumaður í öðru tónlistarstarfi hér í héraði. Í áratugi var hann söngstjóri Karlakórsins Heimis og fátt hélt því merka söngfélagi betur saman en eldlegur áhugi Jóns og eftirminnilegur dugnaður og skyldurækni, og í fleirum söngfélögum hefur Jón starfað og verið söngstjóri. Með störfum sínum að söngmálum hér í héraði hefur Jón Björnsson verið frumherji og forystumaður að heilbrigðu og mannbætandi félags- og menningarlífi og eigum við Skagfirðingar honum stóra skuld að gjalda. </p> <p>Jón hefur samið mikinn fjölda tónsmíða og eru mörg sönglaga hans þjóðkunn. Mörg eru lög Jóns fögur og skemmtilega sönghæf. Á seinustu misserum hafa komið út a. m. k. þrjú hefti með lögum Jóns. Er þar að finna einsöngslög, lög fyrir karlakóra og blandaða kóra. Ég á Jóni frá Hafsteinsstöðum margt og mikið að þakka. Hann hefur verið organisti í tveimur kirkjum mínum alla prestskapartíð mína og samstarf okkar verið með ágætum. - Engum mönnum eigum við prestarnir fremur þakkir að gjalda en organistunum okkar og mikils virði er mér vinátta Jóns. Ég gladdist þegar honum voru úthlutuð listamannalaun, vel átti hann þau skilin, og bágt átti ég að skilja, hvers vegna þau voru af honum tekin í ár. Er hann slíkur skilningur úthlutunarmanna á merkum menningarstörfum, sem unnin eru í strjálbýlinu, og fyrir okkur, sem þar lifum, og þar viljum vera? En hvað um það. Jón Björnsson lifir án þessarar viðurkenningar frá þeim þar syðra, og ég bið honum blessunar í bráð og lengd. </p> <p align="right">Gunnar Gíslason. <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5286636">Organistablaðið 11. árg. 1. tbl. 2. desember 1978.</a></p>

Staðir

Sauðárkrókskirkja Organisti 1972-
Glaumbæjarkirkja Organisti 1922-
Reynistaðarkirkja Organisti 1922-
Ketukirkja Organisti -
Hvammskirkja Organisti -

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014