Þorlákur Runólfsson 1086-1133

Þorlákur var biskup í Skálholti frá 1118. Hann var af góðum ættum. Faðir hans, Runólfur Þorláksson, var bróðursonur Halls Þórarinssonar í Haukadal en móðir Þorláks, Hallfríður Snorradóttir var dóttir Snorra Þorfinnssonar í Glaumbæ og Þorlákur var því barnabarnabarn Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur Vínlandsfara.

Þorlákur stundaði nám hjá frændum sínum í Haukadal. Gissur Ísleifsson biskup kaus hann sem eftirmann sinn og kom það mörgum á óvart. Gissur var mikilmenni að vexti og tígulegur, en Þorlákur var óframfærinn, rétt um þrítugt, og þótti hvorki fríður né mikill skörungur. Össur, erkibiskup í Lundi, sá þó hvað í honum bjó og vígði hann 28. apríl 1118. Hann var þar með þriðji biskupinn í Skálholti. Þorlákur var reyndar vígður til Reykholts því Gissur var enn á lífi þegar Þorlákur var vígður, en lést 30 dögum síðar. Þegar hann kom heim til Íslands var Gissur biskup nýlega dáinn og settist Þorlákur að í Skálholti.

Þorlákur efldi kristnihald og ásamt Katli Þorsteinssyni Hólabiskupi stóð hann fyrir innleiðingu kristniréttar eldri um 1122-33. Það voru hin fyrstu kirkjulög á Íslandi og fjölluðu um flest sem varðaði kristni og kirkju eins og skírn, greftrun, messudaga, helgidaga, hátíðir, föstur, trúvillu o.s.frv.

Þorlákur var með skóla í Skálholti eins og fyrirrennarar hans á biskupsstóli.

Í Hungurvöku, sem er elsta sögulega heimildarit um íslenska kirkjusögu og fjallar um fimm fyrstu biskupana í Skálholti er Þorláki lýst þannig: „Hann var snemmindis skynsamur og siðlátur, og hugþekkur hverjum góðum manni. Bænahaldsmaður mikill var hann þegar á unga aldri, og skjótur í skilningnum og lagður til kennimannsskapar. Linur var hann og lítillátur og óafskiptasamur, heilráður og heilhugaður við alla þá er hjá honum voru, mjúklátur og miskunnsamur við þá er þess þurftu við.“

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 27. apríl 2016, bls. 27

Staðir

Skálholt Biskup 1118-1133

Biskup
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.04.2016