Magnús Jónsson 31.05.1928-26.08.2002

<p>Magnús fæddist í Reykjavík, sonur Agnesar Oddgeirsdóttur húsfreyju og Jóns Sigurðar Björnssonar, deildarstjóra við Útvegsbankann í Reykjavík.</p> <p>Foreldrar Agnesar voru Aðalheiður Kristjánsdóttir húsfrú og Oddgeir Jóhannsson, útvegsbóndi á Hlöðum á Grenivík, en foreldrar Jóns Sigurðar voru Ingibjörg Magnúsdóttir prestsfrú og séra Björn Björnsson, prestur í Laufási.</p> <p>Aðalheiður var systir Jóhanns á Végeirsstöðum í Fnjóskadal, afa Jóhanns Konráðssonar, föður Kristjáns óperusöngvara. Agnes var systir Fanneyjar, móður Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara, og systir Hákonar, þjóðkunns einsöngvara.</p> <p>Magnús kvæntist 1962 Guðrúnu Svafarsdóttur og eignuðust þau tvö börn, Svafar og Sigrúnu Vilborgu.</p> <p>Magnús ólst upp í Reykjavík. Hann æfði frjálsar íþróttir hjá KR og var um skeið í hópi fremstu spretthlaupara landsins. Hann var Íslandsmeistari í 400 og 800 metra hlaupi og tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948 og Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brüssel 1950.</p> <p>Magnús var í söngnámi hjá Pétri Jónssyni 1947-50, í söngnámi í Mílanó á Ítalíu 1951-53 og 1955, í Stokkhólmi 1953, í óperuskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn 1957-1958 og í einkatímum hjá Stefáni Íslandi. Hann söng á konsertum og í óperum á Íslandi, Ítalíu, í Danmörku, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum en söng í fyrsta sinn opinberlega guðspjallamanninn í Jóhannesarpassíunni 1949.</p> <p>Magnús var fastráðinn við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn 1957-66. Hann kom heim 1967, söng í uppfærslum við Þjóðleikhúsið á Ævintýrum Hoffmanns, Leðurblökunni, Kátu ekkjunni, Þrymskviðu, Ástardrykknum og Carmen og með Íslensku óperunni í I Pagliacci. Hann var söngkennari hjá Söngskólanum í Reykjavík en jafnframt starfaði hann hjá endurskoðunardeild Reykjavíkurborgar.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 31. maí 2016, bls. 51.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Söngvari
Einsöngvarakvartettinn Söngvari 1969 1978
Útvarpskórinn Kórsöngvari

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkennari , söngvari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.10.2020