Magnús Jónsson 31.05.1928-26.08.2002

Magnús fæddist í Reykjavík, sonur Agnesar Oddgeirsdóttur húsfreyju og Jóns Sigurðar Björnssonar, deildarstjóra við Útvegsbankann í Reykjavík.

Foreldrar Agnesar voru Aðalheiður Kristjánsdóttir húsfrú og Oddgeir Jóhannsson, útvegsbóndi á Hlöðum á Grenivík, en foreldrar Jóns Sigurðar voru Ingibjörg Magnúsdóttir prestsfrú og séra Björn Björnsson, prestur í Laufási.

Aðalheiður var systir Jóhanns á Végeirsstöðum í Fnjóskadal, afa Jóhanns Konráðssonar, föður Kristjáns óperusöngvara. Agnes var systir Fanneyjar, móður Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara, og systir Hákonar, þjóðkunns einsöngvara.

Magnús kvæntist 1962 Guðrúnu Svafarsdóttur og eignuðust þau tvö börn, Svafar og Sigrúnu Vilborgu.

Magnús ólst upp í Reykjavík. Hann æfði frjálsar íþróttir hjá KR og var um skeið í hópi fremstu spretthlaupara landsins. Hann var Íslandsmeistari í 400 og 800 metra hlaupi og tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948 og Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brüssel 1950.

Magnús var í söngnámi hjá Pétri Jónssyni 1947-50, í söngnámi í Mílanó á Ítalíu 1951-53 og 1955, í Stokkhólmi 1953, í óperuskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn 1957-1958 og í einkatímum hjá Stefáni Íslandi. Hann söng á konsertum og í óperum á Íslandi, Ítalíu, í Danmörku, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum en söng í fyrsta sinn opinberlega guðspjallamanninn í Jóhannesarpassíunni 1949.

Magnús var fastráðinn við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn 1957-66. Hann kom heim 1967, söng í uppfærslum við Þjóðleikhúsið á Ævintýrum Hoffmanns, Leðurblökunni, Kátu ekkjunni, Þrymskviðu, Ástardrykknum og Carmen og með Íslensku óperunni í I Pagliacci. Hann var söngkennari hjá Söngskólanum í Reykjavík en jafnframt starfaði hann hjá endurskoðunardeild Reykjavíkurborgar.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 31. maí 2016, bls. 51.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Einsöngvarakvartettinn Söngvari 1969 1978

Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkennari, söngvari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 22.09.2017