Árni Egilsson 22.05.1939 -

Árni Egilsson er fæddur í Reykjavík 22. maí 1939. Hann nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt síðan til náms í Bretlandi og Hamburg í Þýskalandi (Staatliche Hochschule für Musik). Sem kontrabassaleikari lék hann með sinfóníuhljómsveitum á Íslandi, Írlandi og Þýskalandi, en þar réði hann hinn kunni stjórnandi Sir John Barbirolli til Bandaríkjanna og spila með sinfóníuhljómsveitinni í Houston, Texas. Eftir að Barbirolli lét af störfum tók André Previn við og léku hann og Árni einnig jazz víða saman og spiluðu meðal annars á listahátíð í Reykjavík árið 1974. Gegnum árin hefur Árni gert mikið af að spila einleiksverk fyrir kontrabassa. Sem einleikari hefur hann komið fram á meginlandi Evrópu og víðsvegar í Bandaríkjunum og fengið frábæra dóma gagnrýnenda. Árið 1975 frumflutti hann fyrsta íslenska konsertinn fyrir kontrabassa og sinfóníuhljómsveit, "Niður" eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Stjórnandi var Vladimir Ashkenazy og var konsertinn gefinn út á geisladisk. Árni hefur búið í Los Angeles í Kaliforníu síðan 1969 og er einn eftirsóttasti "stúdíó-bassaleikari" þeirrar borgar. Sem slíkur hefur hann unnið við hljómlist við þúsunda kvikmynda, sjónvarpsþátta og hljómplatna og spilar jöfnum höndum klassíska músík, jazz og rock. Um árabil var Árni prófessor í kontrabassaleik við háskólann California State University Northridge og eru margir nemendur hans meðlimir í þekktum sinfóníuhljómsveitum, svo sem Los Angeles Philharmonic, San Francisco Symphony, San Diego Symphony og evrópskum hljómsveitum. Á seinni árum hefur Árni snúið sér að tónsmíðum og hefur samið mikið af kammermúsík, einleiksstykki fyrir kontrabassa, hljómsveitarverk, hljómlist fyrir leikhús og ballett og kórverk.

Af vef Þjóðleikhússins 1. nóvember 2013.

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Kaliforníuháskóli, Northridge Prófessor -

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Útlendingahersveitin Kontrabassaleikari

Tengt efni á öðrum vefjum

Bassaleikari, prófessor, tónlistarnemandi og tónskáld
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.12.2015