Louisa M. Ólafsdóttir 12.12.1891-28.01.1989

<p>Við sitjum inni í litlu vinalegu stofunni hennar Louisu Ólafsdóttur einn sunnudagseftirmiðdag í janúar. Hér inni er andblær margra liðinna ára. Hver hlutur á sína sérstöku sögu. Hér er gamalt harmonium sem faðir hennar átti, og þar fyrir ofan gömul veggklukka, sem minnir á löngu liðna dvöl í sveit. Á öðrum vegg er stór mynd af sveitabæ ásamt heilli tjaldborg. Þar er kominn áningarstaður hans hátignar Friðriks áttunda á ferð um landið. Þetta er Arnarbæli í Ölfusi og Louisa tekur fram áletrað gullúr, sem konungur hafði gefið föður hennar. Svipa hangir á vegg ásamt öðrum gömlum munum, á skáp stendur hófur af hesti, hvortveggja vitnandi um ást manns og hests á löngum ferðum um landið. Tilefni heimsóknar okkar var að heilsa upp á húsráðanda þessarar stofu, áttræða konu, Louisu Ólafsdóttur, organista Kotstrandarkirkju og rabba við hana um liðna daga og störf.</p> <p>Louisa fæddist 2. des. 1891 að Sandfelli í Öræfasveit. Foreldrar hennar voru sr. Ólafur Magnússon og kona hans Lydia Angeliea Lúðvíksdóttir. Sr. Ólafur þjónaði Sandfelli til ársins 1903, en gerðist þá prestur í Arnarbæli í Ölfusi og var þar til ársins 1940. Sr. Ólafur var músíkalskur maður og lærði að leika á harmonium. Auk þess hafði hann góða söngrödd. Hann stofnaði vísi að kór í Arnarbæli 1915, sem síðar varð kór Kotstrandarkirkju. Sá kór hefur starfað óslitið síðan. Sr. Ólafur stóð einnig fyrir söngnámskeiðum. Á einu slíku, sem haldið var í Þjórsártúni voru tveir ungir menn, sem sr. Ólafur hvatti eindregið til frekara náms. Þessir menn voru Kristinn Ingvarsson og Kjartan Jóhannesson. Þeir urðu báðir kunnir fyrir tónlistarstörf sín. Louisa hóf að nema orgelleik hjá föður sínum um fermingaraldur. Hún naut ekki annarrar kennslu. 1911 gerðist hún organisti að Hjalla í Ölfusi og gegndi því starfi í 4 ár. Þá voru árslaunin 40 krónur.</p> <p>Árið 1909 voru Arnarbæliskirkja og Reykjakirkja sameinaðar í eina kirkju, sem reist var á Kotströnd og þar tók Louisa við organistastarfi 1915 og gegnir því enn. Þannig eru starfsárin orðin rúmlega 60 og geta eflaust orðið nokkur í viðbót því unglegri kona um áttrætt mun vandfundin. Louisa sagði starfi sínu lausu fyrir 10 árum en enginn hefur fengizt í hennar stað. Auk aðalstarfsins hefur hún þráfaldlega leikið við guðsþjónustur annars staðar, t. d. á Dvalarheimilinu Ási, Heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins og Heilsuhælinu að Reykjum þar sem hún var organisti í 2 ár. Sá kór sem sr. Ólafur stofnaði söng aðeins tvíraddað, sópran og bassa, en eftir að Sigurður Birkis hafði stofnað stóran samkór í Ölfusi með kirkjukór Kotstrandar sem kjarna, var tekinn upp söngur í fjórum röddum. Fasti kórinn, sem syngur við guðsþjónustur í Kotstrandarkirkju er 15-20 manns, og æfir Louisa hann fyrir aðrar athafnir kirkjunnar.</p> <p>Að vera organisti er andlegt starf, segir Louisa, já reyndar heilög þjónusta. Við þá þjónustu verðum við að leggja fram líkama og sál. Þess vegna er það mikilvægt að vera kominn snemma til kirkju, þegar messa skal, til þess að hugur og hönd verði samstillt því verki sem vinna skal. Louisa telur mjög æskilegt, að söfnuðurinn syngi sálmana og hefur beðið prestana, sem hún hefur starfað með að hvetja söfnuðinn í því skyni. Eins líkar henni vel að láta syngja sálmana einraddað, ef svo ber undir. Aðalatriðið er að leggja sig allan fram við að koma efni sálmanna til skila. Í Kotstrandarkirkju er sunginn allur venjulegur messusöngur auk hátíðarsöngva sr. Bjarna.</p> <p>Árið 1970 kom pípuorgel í kirkjuna og gamla hljóðfærið varð að víkja. Öld pípuorgelanna er runnin upp á Íslandi, með öllum þeim möguleikum, sem þeim eru samfara. Samt fer ekki hjá því, að Louisa sakni gamla hljóðfærisins, sem hafði veitt henni svo margar hamingjustundir gegnum árin, en varð nú að víkja í skammarkrókinn, eins og hún orðaði það. Kór Kotstrandarkirkju gerir fleira en að syngja við guðsþjónustur. Stundum eru haldnir hljómleikar. Þá er fengið aðstoðarfólk í alIar raddir þannig að kórinn verður helmingi stærri en venjulega. Á efnisskránni eru bæði andleg og veraldleg verkefni. Fyrir slíka hljómleika æfir Louisa raddir en fær sér til aðstoðarmann, sem stjórnar kórnum endanlega. Jón H. Jónsson hefur oft verið henni hjálplegur, og það er auðfundið, að Louisa metur það samstarfs mikils. Hún dregur fram stóra mynd af kórnum þeirra Jóns og sýnir okkur. Þetta er sannarlega fallegur hópur og brosin ljóma af andlitunum. „Það getur enginn sungið fallega ef hann er fýldur“ áréttar þessi áttræða kona og augun tindra af lífsgleði og fjöri.</p> <p>Það er orðið áliðið dags, þegar við hjónin kveðjum Louisu og vinalegu stofuna hennar. Við höldum út í rökkur síðdegisins og erum þakklát fyrir þessa ánægjulegu dagstund.</p> <p align="right"><a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5285722">Louisa Ólafsdóttir áttræð.</a> Gústaf Jóhannesson. Organistablaðið. 1. apríl 1972, bls. 2.</p>

Staðir

Eyrarbakkakirkja Organisti 1918-1918
Kotstrandarkirkja Organisti 1915-1978
Hjallakirkja Organisti 1911-1915

Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum

6 hljóðrit
Dags Safnmark Efni Heimildarmenn #
1982 SÁM 95/3892 EF Louisa segir frá æviatriðum sínum og starfi sínu sem organisti á Hjalla og Kotströnd, einnig kórstar Louisa M. Ólafsdóttir 44748
1982 SÁM 95/3892 EF Minnst á kirkjur í Ölfusi, en síðan rætt áfram um organistastarfið og kórinn; um tónlistarþekkingu s Louisa M. Ólafsdóttir 44749
1982 SÁM 95/3892 EF Um presta í Ölfusi, minnst á Helga Sveinsson, síðan um orgel sem hafa verið í kirkjunum í Ölfusi Louisa M. Ólafsdóttir 44750
1982 SÁM 95/3892 EF Nefndir ýmsir kórstjórar sem Louisa hefur unnið með Louisa M. Ólafsdóttir 44751
1982 SÁM 95/3892 EF Rifjar upp þegar konungurinn kom 1907, en kóngurinn gisti á Arnarbæli Louisa M. Ólafsdóttir 44752
1982 SÁM 95/3892 EF Spurt um vísur eftir séra Helga Sveinsson: Hún Lúlla er fimmtug og fær ekki mann Louisa M. Ólafsdóttir 44753

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 4.06.2019