Sigurður Breiðfjörð 04.04.1798-21.07.1846

Sigurður fæddist í Rifgirðingum á Breiðafirði 4. mars 1798. Foreldrar hans voru Eiríkur Sigurðsson, bóndi í Rifgirðingum, og k.h., Ingibjörg Bjarnadóttir frá Mávahlíð, húsfreyja.

Sigurður fór til Kaupmannahafnar í lok Napóleonsstyrjaldanna og lærði þar beykisiðn. Hann kom aftur heim 1818, var beykir á Ísafirði til 1822, í Reykjavík til 1825, var í Vestmannaeyjum næstu þrjú árin þar sem hann kvæntist og síðan vestur í Helgafellsveit og í Flatey. Þar sinnti hann beykisiðn, kenndi sund, stundaði sjóróðra og málflutning.

Sigurður þótti liðtækur málflutningsmaður og fór aftur til Kaupmannahafnar, haustið 1830, nú til að læra lög.

Lítið varð þó úr laganáminu. Honum eyddist fé, réð sig sem beyki til konungsverslunarinnar á Grænlandi og var þar á árunum 1831-34. Þá fór hann aftur til Kaupmannahafnar og var kominn til Stykkishólms sumarið 1834, var þar skamma hríð, kvæntist aftur og bjó síðan á Grímsstöðum í Breiðavík frá 1836. Þá kom í ljós að Sigurður hafði trassað að skilja við fyrri konu sína og var dæmdur í fésektir fyrir tvíkvæni.

Sigurður flutti síðan til Reykjavíkur árið 1842 og bjó þar við kröpp kjör síðustu æviárin og lést í örbirgð. Leiði Sigurðar er í Hólavallakirkjugarði, rétt við hliðið á miðjum austurvegg garðsins.

Sigurður var iðjumaður en þótti veitull á fé, var gleðimaður mikill og óreglusamur. Hann orti fjölda rímnaflokka og voru margir þeirra prentaðir jafnóðum, enda var hann eitt vinsælasta skáld af alþýðu manna hér á landi.

Sigurður var svo óheppinn að yrkja eftir pöntun níðvísu um Fjölni og Fjölnismenn. Hann fékk í skáldalaun frá Jónasi Hallgrímssyni hina frægu bókmenntagrein hans um rímur sem Jónas kallaði „leirburðarstagl og holtaþokuvæl“. Þar er rímnaformið nánast jarðað og Tristansrímur Sigurðar teknar sem dæmi um þennan kveðskap.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 4. mars 2015, bls. 28.

Erindi


Tengt efni á öðrum vefjum

Beykir og skáld

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 21.02.2020