Theódóra Þorsteinsdóttir 07.08.1958-

Theódóra er fædd á Hólmavík og ólst upp í Borgarnesi. Á sínum ungdómsárum stundaði hún tónlistarnám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og lauk stúdentsprófi á tónlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Theodóra stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan söngkennaraprófi (LRSM). Kennarar hennar hafa verið Anna Júlíana Sveinsdóttir og Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Sigurveig Hjaltested og Snæbjörg Snæbjarnardóttir.

Hún stundaði söngnám um tveggja ára skeið í Vínarborg hjá prófessor Helene Karusso. Einnig sótti hún söngtíma hjá Rinu Malatrasi á Ítalíu og hefur þar að auki sótt fjölmörg námskeið, m.a. hjá Erik Werba og André Orlowitz.

Theodóra hefur víða komið fram sem einsöngvari hérlendis og erlendis, hefur haldið einsöngstónleika og syngur með Kór íslensku óperunnar. Hún hefur tekið þátt í mörgum uppfærslum hjá Íslensku óperunni. Haustið 2003 söng Theódóra einsöng með kórnum í óratoríunni Elía eftir Mendelssohn í Sandefjord og Oslo í Noregi og 7. nóvember sl. í Carnegie Hall í New York.

Theodóra hefur kennt söng við Söngskólann í Reykjavík, Tónlistarskóla Borgarafjarðar og Tónlistarskóla Stykkishólms. Hún hefur auk þess fengist við að raddþjálfa kóra í Borgarfjarðarhéraði og víðar.

Theodóra býr í Borgarnesi og er skólastjóri og söngkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.


Tengt efni á öðrum vefjum

Skólastjóri, söngkennari og söngkona
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 8.11.2013