<p>Helgi Valur fæddist í Gautaborg, Svíþjóð. Þaðan lá leiðin til Hveragerðis þar sem hann ólst upp við trúbadortónlist Bob Dylan og Cat Stevens. Þegar fram liðu stundir lærði pilturinn á gítar og spilaði sem gítarleikari með hinum ýmsu hljómsveitum. </p>
<p>Árið 2000 hófst svo söngferill piltsins, þegar hann lenti í þriðja sæti í Söngkeppni Framhaldsskólanna með lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen í útgáfu Jeff Buckley. Ásamt Jeff Buckley má nefna að áhrifavaldar Helga eru m.a. Saul Williams, Will Oldham, Nick Drake, Leonard Cohen, Fiona Apple og Elliot Smith.</p>
<p>Í sumarbyrjun árið 2004 reyndi Helgi Valur fyrir sér sem trúbador og náði að framfleyta sér með því að spila á götum Kaupmannahafnar og Malmö við góðar undirtrektir Skandinava. Í sumarlok sneri hann aftur til Íslands með dýrmætt veganesti og sigraði í Trúbadorkeppni Rásar 2. </p>
<p>Verðlaunin í þeirri keppni voru ferð á Trúbadorahátíð í Neskaupstað. Helgi fangaði þar eyru viðstaddra og einn af þeim var Jón Ólafsson sem áttaði sig strax á því að hér væri hæfileikamaður á ferð. Tókst með þeim góður vinskapur og eftir að hafa spilað saman en þó í sitthvoru lagi á nokkrum tónleikum var ákveðið að Jón myndi stjórna upptökum á fyrstu breiðskífu Helga Vals. </p>
<p>Í kjölfarið fylgdi útgáfusamningur við Dennis Records og upptökur eru nú komnar vel á veg. Stefnt er á útgáfu fyrztu sólóplötu Helga Vals í lok maí.</p>
<p align="right">Textinn er af Tónlist.is (21. maí 2015).</p>
Staðir
Tengt efni á öðrum vefjum