Skapti Sigþórsson (Skafti Sigþórsson) 10.07.1911-16.11.1985

Foreldrar: Sigþór Jóhannsson, bóndi í Litlagerði (7. mars 1885 - 8. nóv. 1940) og k. h. Guðrún Jónsdóttir (8. ágúst 1882 á Málmey á Skagafirði - 9. ágúst 1964).

Námsferill: Gekk um skeið í Menntaskólann á Akureyri; stundaði nám í fiðluleik á Akureyri hjá Karli O. Runólfssyni og hjá Hans Stephanek við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Starfsferill: Var fiðluleikari í Útvarpshljómsveitinni; fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-1952 og víóluleikari 1952-1981; lék ennfremur á víólu í hljómsveit Þjóðleikhússins og saxófón í Lúðrasveit Reykjavíkur; lék einnig í fjölda danshljómsveita á fiðlu, víólu, trompet, saxófón og trommur, t.a.m, í hljómsveit Carls Billich, Aage Lorange, Bjarna Böðvarssonar og Karls 0. Runólfssonar; samdi danslagatexta og gaf út danslaganótur og urðu margir danslagatextar hans vel þekktir, svo sem Suður um höfin, Jósef, Jósef og Heyr mitt ljúfasta lag; rak innrömmunarverkstæði í hjáverkum í mörg ár.

Sjá nánar: Sinfóníuhljómsveit Íslands – saga og stéttartal, bls. 240. Sögusteinn 2000

... Margar hans vísur við dægurlög urðu landsþekktar, svo sem Suður um höfin, Jósef, Jósef, Heyr mitt ljúfasta lag o.m.fl.

Það var þá [þegar Skafti bjó á Akureyri eftir 1920] sem leiðir okkar Skafta lágu saman, í fiðlutímum hjá Karli Otto Runólfssyni. Þar fengum við svo að leika síðar í Hljómsveit Akureyrar sem Karl og fleiri stofnuðu. Merkilegasta afrekið okkar þá var þegar við lékum saman 2. fiðlu á hljómplötuupptöku 1933, sem gerð var af sérfræðingum, með tæki og tól komnir með skipi alla leið frá Lundúnum. Þetta var platan með Karlakórnum Geysi og Hljómsveit Akureyrar, sem fluttu Förumannaflokkar þeysa eftir Karl og Davíð.

Nú langar mig einnig að minnast á, að Skafti innritaðist í Menntaskólann á Akureyri. Á þessum árum þurftu nemendur úr bænum að greiða 150 kr. í skólagjald. Utanbæjarmenn munu hafa fengið frítt. Eftir veturinn fékk Skafti viðurkenningu fyrir góða námshæfileika og ástundun. Einnig fékk hann sínar 150 kr. endurgreiddar. Hann varð náttúrlega harla glaður við. Nú fór hann með sitt eigið fé og keypti sér fiðlu, en handa mömmu sinni keypti hann nýtt peysufatasjal.

Það fór nú svo, upp frá þessu, að tónlistin tók huga hans meir og meir, þar til að því kom að hann hætti í menntaskólanum. Hann hafði áform — og fékk með samþykki og aðstoð foreldra að fara suður og innritast í Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lagði nú stund á fiðlunám hjá Hans Stephanek frá Vínarborg. Brátt kom að því að hann varð liðtækur í raðir tónlistarmanna, sem höfðu þá hugsjón að byggja upp tónlistarlíf hér á Íslandi, en allt var þá hér í frumbernsku í því tilliti. Skafti var trúr þessari hugsjón og má teljast einn þeirra manna sem vann ötullega að því að tónlistarflutningur þroskaðist og dafnaði, til þess sem hann er orðinn í höfuðborginni í dag.

Eftir áraraðir sem fiðluleikari tók hann upp violuleik. Á það hljóðfæri lék hann í Sinfóníuhljómsveit íslands, en þar var hann starfsmaður frá stofnun, þar til hann fyrir fáum árum lét af starfi vegna aldurs. Skafti lék jafnframt á önnur hljóðfæri s.s. trompet og saxófón. Hann var fyrr á árum í ótal hljómsveitum á skemmtistöðum í Reykjavík og úti á landsbyggðinni. T.d. var hann eitt sinn á Siglufirði að sumri, í Hljómsveit Karls Runólfssonar, og varð sú hljómsveit á þeim tíma landsfræg. Karl samdi þá mörg lög sem þekkt urðu svo sem Lágnætti, eða Viltu mæta mér kæra út á ströndinni í kvöld o.m.fl. ...

Þorvaldur Steingrímsson. Minningargrein. Morgunblaðið. 24. nóvember 1985, bls. 65

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Danshljómsveit Þóris Jónssonar Fiðluleikari og Saxófónleikari
Hljómsveit Aage Lorange Saxófónleikari 1946
Sinfóníuhljómsveit Íslands Fiðluleikari 1950 1952
Sinfóníuhljómsveit Íslands Víóluleikari 1952 1981

Tengt efni á öðrum vefjum

Fiðluleikari, saxófónleikari, textahöfundur, trompetleikari, tónlistarnemandi og víóluleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 19.10.2020