Tinna Þorsteinsdóttir 24.03.1974-

<p>Tinna nam ung að árum píanóleik við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Guðríði St. Sigurðardóttur. Hún hélt til Þýskalands árið 1994, þar sem hún tók einkatíma hjá prófessor Einari Steen-Nökleberg í Hannover. Síðar lauk hún prófi frá Tónlistarháskólanum í Detmold-Münster árið 2000, þar sem kennari hennar var prófessor Gregor Weichert. Árið 2001 fékk Tinna Fulbright styrk og hóf nám við New England Conservatory of Music í Boston hjá prófessor Stephen Drury. Tinna lauk þaðan Graduate Diploma í október 2003 að undangengnum tvennum einleikstónleikum 2002 og 2003.</p> <p>Tinna hefur tekið þátt í fjölda námskeiða, m.a. í túlkun 20. aldar tónlistar og barokktónlistar. Hún hefur leikið fyrir píanista eins og frú Yvonne Loriod-Messiaen, Pierre Réach, Marc Ponthus, Haydée Schvartz og tónskáldin Helmut Lachenmann og Christian Wolff.</p> <p>Tinna hefur leikið á fjölda tónleika á Íslandi sem og í Þýskalandi og Boston, einleik og kammertónlist. M.a. lék hún einleik á Bach hátíð í Rheine í Þýskalandi, Goethe Institute í Boston, á tónleikaröðinni 15:15 í Borgarleikhúsinu, alþjóðlegu píanómasterklössunum í Óbidos í Portúgal, Summer Institute of Contemporary Piano Performance í Boston og á Internationale Ensemble Modern Akademie masterklössunum á tónlistarhátíðinni Klangspuren í Schwaz í Austurríki. Tinna hefur einnig tekið þátt í Ung Nordisk Musik tónlistarhátíðinni.</p> <p>Árið 2001 fékk hún námsstyrk frá The American-Scandinavian Foundation. Tinna hélt debut-tónleika sína í Salnum í Kópavogi í janúar 2004 og starfsárið 2003-2004 vann hún sem píanóleikari við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Tinna hélt einleikstónleika á Myrkum Músíkdögum í febrúar 2005, þar sem hún frumflutti fimm íslensk píanóverk sem voru sérstaklega samin fyrir hana og styrkt af Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Í kjölfarið flutti Tinna sömu efnisskrá á opnunartónleikum listahátíðarinnar Nordischer Klang í Greifswald, Þýskalandi og í norrænu sendiráðunum í Berlín. Einnig hélt hún tvenna tónleika í Peking. Framundan hjá henni eru einleikstónleikar á Bergen listahátíðinni 2006 og útgáfa á geisladiski með íslenskri píanótónlist hjá Smekkleysu.</p> <p>Tinna Þorsteinsdóttir er listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.</p> <p align="right">Af vef tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið 2006.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Píanóleikari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 6.11.2013