Eyjólfur Stefánsson 14.07.1905-31.01.1994

Eyjólfur Stefánsson organisti, Höfn í Hornafirði varð sjötugur 14. júlí í sumar. Hann er fæddur í húsi afa síns, Eyjólfs R. Sverrissen á ReynivölIum í Suðursveit og var þar 6 fyrstu árin. Þar, í fögru umhverfi, vaknaði tónlistaráhugi hans þegar hann heyrði afa sinn leika á orgelið sitt. Þá blossaði upp löngunin til að fara höndum um hljóðfærið. Eftir að afi hans hafði sent honum það að gjöf fór hann að iðka hljóðfæraleik. Þegar hann var beitingastrákur á Höfn komst hann í kynni við danstónlistina. Hann átti þá góða harmoníku og lék oft á hana fyrir dansi og einnig oft á orgel sem þá var vinsælt á Höfn. Á sumrin var mikið um útisamkomur. Þá lagði Eyjólfur á gæðing sinn, sem talinn var sá besti í sveitinni, og spretti úr spori. Þar var sungið og spilað svo að undir tók í fjöllum, enda fengu þessar samkomur nafnið Fjallasamkomur. Eftir að Menningarfélag Austur-Skaftfellinga var stofnað voru haldnar samkomur í hreppum sýslunnar til skiptis, og stóðu þær ævinlega í 2-3 daga. Þar var mikið sungið og spilað og dansað. Þar vöknuðu óteljandi lífsneistar til úrbóta þeirri einangrun sem Austur Skaftfellingar bjuggu þá við. Eyjólfur fékk góða tilsögn í tónlist hjá Bjarna Bjarnasyni organista á Brekkubæ í Nesjum, Eyjólfur var organisti við Kálfafellsstaðarkirkju. Þar stofnaði hann 20 manna blandaðan kirkjukór. Hann kenndi einnig söng í barnaskóla Suðursveitar.

Árið 1952 flutti hann að Höfn í Hornafirði og varð þar organisti, stofnaði 20 manna kirkjukór, kenndi söng í barna- og unglingaskólanum í 20 ár og stjórnaði barna- og unglingakórum og hafði hönd í bagga með ýmsum söngflokkum. Eyjólfur hefur oft leikið undir fyrir ýmsa einsöngvara. Úr þeim hópi verður aðeins nefnd hin ágæta sópransöngkona, Ágústa Sigurbjörnsdóttir, kona Eyjólfs. Hún hefur fylgt honum dyggilega í starfi söngs og tóna. F.LA. sendir þeim hjónum árnaðaróskir.

Heimild: Organistablaðið 3. tbl. 8. árg. 1975

Staðir

Kálfafellsstaðarkirkja Organisti 1928-1952
Hafnarkirkja Organisti 1952-

Tengt efni á öðrum vefjum

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 21.04.2016