<p>Júlíus fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í foreldrahúsum í Skólastræti 1, fyrir ofan Bernhöftstorfuna. Júlíus var í Miðbæjarskólanum og Gagnfræðaskóla Austurbæjar og lauk stúdentsprófi frá MR 1975.</p>
<p>Hann var við tónlistarstörf með hljómsveitinni Pelikan í Kaupmannahöfn á árunum 1976-81 og starfaði við upptökur með Þursaflokknum um skeið og síðan með hljómsveitinni Stuðmönnum á árunum 1981-87.</p>
<p>Júlíus starfaði með Agli Ólafssyni við tónlistarstúdíóið Grettisgat en stofnaði Stúdíó Eitt 1986 og hefur starfrækt það síðan.</p>
<p>Stúdíó Eitt hefur hljóðsett og tekið upp ógrynni auglýsinga fyrir útvarp og sjónvarp, sem og heimildarmyndir og heimildarþætti og séð um hljóðsetningu á fjölda teiknimynda og barnaefnis fyrir ýmsa aðila. Þá hefur Stúdíó Eitt séð um hljóð- og talsetningu fyrir íslenska útgáfu á allflestum þekktustu teiknimyndum stóru Hollywood-kvikmyndaveranna frá 1992. Fyrirtækið hefur hljóð- og talsett 79 Walt Disney-kvikmyndir, 15 kvikmyndir fyrir Warner Brothers, 25 kvikmyndir fyrir Dreamworks og 14 aðrar kvikmyndir í fullri lengd, s.s. íslensku kvikmyndirnar Foxtrot, Hvíta víkinginn, Með allt á hreinu, Hvíta máva og Rokk í Reykjavík auk sjónvarpsþáttanna Nonna og Manna.</p>
<p>Barnsmóðir Júlíusar er Vilhelmína Kristinsdóttir. Synir Júlíusar og Vilhelmínu eru Eiríkur Kristinn, kvikmyndagerðarmaður, Agnar Már tölvunarfræðingur og Björn Ármann tölvunarfræðingur.</p>
<p>Foreldrar Júlíusar voru Agnar Guðmundsson skipstjóri og framkvæmdastjóri og k.h., Birna Petersen húsfreyja, sem bæði eru látin.</p>
<p align="right">Andlátsfrétt á mbl.is 24. apríl 2013.</p>
Staðir
Hópar
Skjöl
Tengt efni á öðrum vefjum