Sigfús Einarsson 30.01.1877-10.05.1939

<p>Foreldrar Sigfúsar voru Einar Jónsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Guðrún Jónsdóttir frá Hafnarfirði.</p> <p>Einar var af Bergsætt eins og frændur hans, þeir organistar, Bjarni, Jón og Ísólfur Pálssynir, synir Ísólfs, dr. Páll, tónskáld og dómorganisti, og Sigurður, organisti í Fríkirkjunni í Reykjavík, og sonur Bjarna, Friðrik, tónskáld og organisti í Hafnarfirði.</p> <p>Eiginkona Sigfúsar var Valborg Inger Elisabeth Hellemann, dönsk söngkona og píanóleikari, en þau eignuðust tvö börn, Elsu Sigfúss söngkonu, og Einar Sigfússon, tónlistarkennara og fiðluleikara við sinfóníuhljómsveitina í Árósum.</p> <p>Sigfús lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1898. Hann lærði söng í Kaupmannahöfn hjá Valdemar Lincke óperusöngvara og hljómfræði hjá August Enna, fékk styrk hjá Alþingi og hóf að kynna sér íslenzk þjóðlög og raddsetja þau.</p> <p>Útsetningar á íslenskum þjóðlögum og hrífandi sönglög við ættjarðarljóð skáldanna voru þá veigamikill þáttur í þjóðfrelsisvakningu þessara ára en þá stemmingu má vel merkja í ýmsum lögum Sigfúsar, s.s. <em>Þú álfu vorrar yngsta land</em> og <em>Rís þú unga Íslands merki</em>.</p> <p>Sigfús og Valborg giftu sig 1906 og settust þá að í Reykjavík. Þau lifðu fyrst á einkasöngkennslu, en Sigfús kenndi síðan söng við Kennraskólann frá stofnun, 1908, varð dómorganisti og söngkennari Menntaskólans 1913 og kenndi guðfræðistúdentum tón- og sálmasöng 1911-29. Auk þess stjórnaði Sigfús fjölda kóra um árabil og var skipaður söngmálastjóri fyrir Alþingishátíðina 1930. Hann stofnaði Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt Jóni Laxdal, 1925 og stjórnaði henni fyrstu tvö árin. Þá endurskoðaði hann kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar og gaf út sína eigin, vann að útgáfu Sálmasöngsbókar og gaf út Íslenzkt sönglagasafn I og II svo fátt eitt sé nefnt.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 31. janúar 2014, bls. 31.</p> <p>Sjá einig Kennaratal á Íslandi, II. bindi, bls. 87.</p>

Staðir

Dómkirkjan Organisti 1913-1939

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti , söngstjóri , tónlistarkennari og tónskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.08.2016