Þórður Þorláksson 14.08.1637-17.03.1697

Þórður var sonur Þorláks Skúlasonar biskups, og k.h., Kristínar Gísladóttur. Þorlákur var sonur Skúla Einarssonar á Eiríksstöðum og Steinunnar Guðbrandsdóttur, biskups Þorlákssonar, en Kristín var dóttir Gísla, lögmanns Hákonarsonar.

Bróðir Þórðar var Gísli Þorláksson Hólabiskup.

Kona Þórðar var Guðríður, dóttir Vísa-Gísla Magnússonar, sýslumanns á Hlíðarenda, og Þrúðar Þorleifsdóttur. Synir Þórðar og Guðríðar voru Þorlákur Þórðarson, skólameistari í Skálholti, og Brynjólfur Thorlacius Þórðarson, sýslumaður í Rangárvallasýslu.

Þórður lærði í Hólaskóla, varð stúdent 1656, lærði við Kaupmannahafnarháskóla og varð þar síðan attestatus. Hann var rektor Hólaskóla 1660-63 en var síðan við nám víða í Evrópu, fyrst í Kaupmannhöfn, við háskólann í Rostock í hálft ár, í Wittenberg í eitt og hálft ár, ferðað- ist síðan um Þýskaland og Frakkland, var skráður í háskólann í Strassborg 1666, í París 1666-67 og síðan í Belgíu, Hollandi og Kaupmannahöfn. Hann hlaut magisters-nafnbót við Kaupmannahafnarháskóla 1667, fékk vonarbréf fyrir Skálholtsbiskupsdæmi 1669, dvaldi síðan í Noregi, fékk biskupsvígslu 1672 og tók við Skálholtsbiskupsdæmi 1674.

Fyrirrennari Þórðar í Skáholti og eftirmaður voru báðir með þekktari biskupum staðarins, þeir Brynjólfur Sveinsson og Jón Vídalín. En Þórður var í raun engu ómerkari. Hann var mikill áhugamaður um náttúruvís- indi, jarðfræði og landafræði, flutti prentverkið frá Hólum til Skálholts, mun hafa endurbætt prentverkið verulega og varð fyrstur til að láta prenta fornrit á Íslandi, m.a. fyrstu prentuðu útgáfu Landnámu 1688. Þá samdi hann Íslandslýsingu (Dis- sertatio chorographico-historica de Islandia) sem var prentuð í Wittem- berg 1666. Til eru landakort eftir Þórð af Íslandi og Grænlandi. Þá gerði hann tilraunir með kornrækt í Skálholti.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 14. ágúst 2015, bls. 35.

Í ræðu sem dr. Jakob Benediktsson hélt við setningu 10. Sumartónleika í Skálholti 6. júlí 1985 vék hann að Þórði Þorlákssyni (sjá hér nánar á Tengt efni á öðrum vefjum):

... [1685] sat á biskupsstóli hér í Skálholti Þórður Þorláksson, fjölmenntaðasti Íslendingur sinnar samtíðar. Hann hafði stundað nám ekki aðeins í Kaupmannahöfn, heldur víða um lönd, hafði dvalist árum saman við ýmsa háskóla í Þýskalandi og þar að auki í París um skeið. Hann var áhugamaður um tónlist langt umfram það sem gerðist með Íslendingum. Þess er getið í annálum að hann hafði heim með sér frá Kaupmannahöfn erlend hljóðfæri, regal og symfón, og lék á þau í brúðkaupi bróður síns, Gísla biskups á Hólum. Og tónlistaráhuganum gleymdi hann ekki eftir að hann varð biskup.

Árið 1685 útskrifaðist úr Skálholtsskóla ungur maður, Hjalti Þorsteinsson. Hann var síðan um skeið í þjónustu biskups áður en hann fór til náms í Kaupmannahöfn. Hann hefur síðar sagt um Þórð bískup að hann „var mjög gefinn fyrir musicam instrumentalem, hafði og til þess clavichordium, symfón og regal“. Hjalti segist sjálfur hafa haft „stóra lyst til musicam“, og það hefur greinilega ekki farið fram hjá Þórði biskupi, því að síðasta árið sem Hjalti var í Kaupmannahöfn lagði biskup fyrir hann að hann skyldi læra nokkuð í tónlist, en það varð til þess að Hjalti sótti kennslu hjá organistanum við Þrenningarkirkju í Kaupmannahöfn. Þegar Hjalti kom heim árið 1690 var hann enn um skeið í þjónustu Þórðar biskups og biskup fól honum að stemma og gera við hljóðfæri sin, „því hann vildi sitt regal hljóma láta i Skálholtskirkju á næstu jólahátíð“, eins og Hjalti segir. Úr þessu varð þó ekki, því að á þessu sama ári andaðist dómkirkjupresturinn og Hjalti var vígður í hans stað, en þá hefur ekki þótt hlýða að hann gegndi starfi hljóðfæraleikara. Tveimur árum síðar varð hann prestur í Vatnsfirði, og síðan fara engar sögur af hljóðfæraleik í Skálholtskirkju, enda var Þórður biskup heilsulítill það sem hann átti ólifað.

En einmitt þetta sama ár var Þórður biskup að undirbúa nýja útgáfu af grallaranum, sem kom út vorið 1691. Aftan við hann lét hann prenta stutt ágrip af söngfræði sem hann hafði sjálfur samið, en það er fyrsta ritsmíð af því tagi sem prentuð var á íslensku. Þetta er ekki löng ritgerð, aðeins sjö blaðsíður, en hún sýnir áhuga biskups á því að stuðla að þekkingu landsmanna undirstöðuatriðum tónmenntar...

Tónlist liðinna alda hljómar nú aftur á þessu fornhelga menningarsetri. Jakob Benediktsson. Morgunblaðið. 10. júlí 1985, bls. 18.


Tengt efni á öðrum vefjum

Biskup, ljóðskáld og þýðandi
Ekki skráð
Ekki skráð

Gunnlaugur V. Snævarr uppfærði 9.01.2018