Friðrik Bjarnason 27.11.1880-28.05.1962

<p>Friðrik Bjarnason, organisti og tónskáld, var fæddur í Götu í Stokkseyrarhreppi 27. nóvember 1880 og er kominn af hinni alkunnu Bergsætt. Faðir hans, Bjarni Pálsson, varð ungur forsöngvari í Stokkseyrarkirkju og fyrsti organleikari þar eftir að hljóðfæri kom í kirkjuna, árið 1876. Bjarni var mikill mannkosta- og gáfumaður og þótti það hinn mesti mannskaði er hann drukknaði ásamt 5 öðrum við Þorlákshöfn í febrúar 1887. Þar fórust og 2 aðrir organistar. – Bjarni varð aðeins 29 ára gamall.</p> <p>Mikið var sungið á Stokkseyri á uppvaxtarárum Friðriks. Varla hittust svo 3 strákar, að ekki væri tekið lagið, þríraddað. Á æskuheimili hans þagnaði orgelið ekki allan daginn, þegar ekki var róið. Tónlistarhæfileikar hans komu snemma í ljós. Er hann var aðeins þriggja ára, lét faðir hans hann syngja fyrir gesti, en lék sjálfur undir á stofuorgel. Undruðust menn hve vel hinn ungi sveinn söng. Fyrstu tilsögn í orgelspili fékk hann hjá frændum sínum á Stokkseyri, en fór fyrst fyrir alvöru að stunda tónlistarnám, er hann var kominn suður, árið 1899. Hann settist í Kennaraskólann í Flensborg í Hafnarfirði og lauk þaðan prófi árið 1904. Söngkennari við skólann var þá frændi hans Sigfús Einarsson tónskáld og nam Friðrik organleik hjá honum. – Næstu 4 árin stundaði Friðrik kennslu austanfjalls.</p> <p>Í „Tónlistinni“ 1. árg. 2. h. birtist grein eftir Friðrik, er gefur góða svipmynd af tónlistariðkun á heimilum austanfjalls á þessum árum og þeim jarðvegi, er margir af okkar fremstu tónlistarmönnum eru sprottnir úr.</p> <p>Árið 1908 gerðist Friðrik kennari við barnaskóla Hafnarfjarðar og kenndi hann fyrst framan af allar greinir, eftir því, sem atvikin höguðu til. Síðar varð söngkennslan hans aðalgrein. Skólakór hans þótti ágætur alla tíð og setti svip sinn á skólalífið. Um skeið stýrði hann blönduðum kór í barnaskólanum. Sungu þá drengir sópran og alt en kennarar tenór og bassa. Friðrik hætti kennslu við barnaskólann árið 1945 eftir 37 ára heillaríkt starf. Hann kenndi einnig söng við Flensborgarskóla á árunum 1908-21. Þar stýrði hann líka skólakór og lærðu margir að syngja eftir nótum hjá honum. Á fyrstu kennaraárum sínum fór Friðrik oft gangandi til Reykjavíkur til þess að hlýða á söngkennslu Brynjólfs Þorlákssonar og Sigfúsar Einarssonar í barnaskóla Reykjavíkur og læra af reynslu þeirra, en þeir þóttu hinir ágætustu söngkennarar. Enn fremur fór hann nokkrum sinnum utan til frekara náms í tónlist, og árið 1913 stundaði hann nám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Auk þess kynnti hann sér söngkennslu í Noregi og Svíþjóð.</p> <p>Auk umfangsmikilla kennslustarfa stofnaði Friðrik nokkra kóra og þjálfaði þá. - Fyrst má telja karlakórinn „Þresti“ sem hann stofnaði 1912 og stjórnaði í 14 ár. Kvennakór, „Erlur“ stofnaði hann 1918. Sá kór starfaði nokkur ár og söng oft opinberlega. Nokkra aðra kóra stofnaði hann í Hafnarfirði, en þeir urðu skammlífir. Nokkuð sinnti Friðrik ritstörfum, aðallega um tónlist og ættfræði. Hann stofnaði ásamt Sigfúsi Einarssyni tónlistartímaritið „Heimi“ hinn eldri, er hóf göngu sína 1923 og kom út í nokkur ár. Eftir fyrsta árið varð hann að láta af ritstjórn þess sökum annríkis. Hann skrifaði margar ágætar greinar í það blað.</p> <p>Fyrir nokkrum árum birtust nokkrir minningaþættir eftir Friðrik í tímaritinu „Akranes“. Seinna voru þeir gefnir út í bókarformi (Akranesútgáfan 1957). Helzta starf Friðriks utan söngkennslunnar var kirkjuorganleikarastarfið. - Við Garðakirkju starfaði hann frá því í júlí 1914 og fram á jólaföstu það ár, er Hafnarfjarðarkirkja var vígð og tók hann við organleikarastarfi þar. Árið 1916 gaf kvenfélag kirkjunnar nýtt 7 radda pípuorgel í kirkjuna og var það fyrir tilstilli Friðriks. Orgelið smíðaði Zachariassen í Árósum og þótti hið ágætasta hljóðfæri. Það kostaði 3700 krónur. Þetta orgel er nú í Kirkjuvogskirkju Höfnum.</p> <p>Kirkjusöngur hjá Friðrik þótti alltaf mjög vandaður og kórinn var skipaður úrvals söngröddum. - Hátíðavíxlsöngva samdi hann, sem um árabil voru sungnir. Sérstaklega má geta áramótasöngvanna, sem settu sérstakan hátíðablæ á guðsþjónusturnar á gamlárskvöld og nýársdag. Kirkjukórinn söng einnig við ýms tækifæri utan kirkju í tíð Friðriks, m. a. tvívegis í útvarp og þótti takast vel. Hann sagði lausu organleikarastarfinu við Hafnarfjarðarkirkju haustið 1950. Hann hafði þá um hríð þjáðst af taugabólgu í hægri hendi, sem gerði honum ókleift að rækja það starf svo vel, að hann gæti við unað.</p> <p>Þekktastur var Friðrik fyrir tónsmíðar sínar. Þegar hann hóf söngkennslu voru „Jónasarheftin“ nær eingöngu notuð, öðru var vart til að dreifa. Í þeim voru nær eingöngu útlend lög, mest við þýdda texta, sem féllu misjafnlega að lögunum. Hann hafði veitt því athygli, að nágrannaþjóðirnar bjuggu mjög að sínu í þessu efni, og fór að hugleiða hvort við Íslendingar gætum eigi all teins samið okkar lög sjálfir eins og að fá þau lánuð erlendis frá. Þessar bollaleggingar höfðu heillaríkar afleiðingar og árið 1918 komu út 2 fyrstu og einhver þau beztu af lögum hans: „Fyrr var oft í koti kátt“ og „Hafið, bláa hafið“, sem urðu brátt landfleyg. Af tónsmíðum Friðriks hafa komið út 7 sönglagahefti með alls 52 lögum, einnig 10 orgellög. Auk þess gaf hann út, ýmist einn eða með öðrum 7 hefti af skólasöngvum og handbók söngkennara. Loks tók hann og Páll Halldórsson saman „Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum“ (1949).</p> <p>Friðrik Bjarnason er eitt vinsælasta tónskáld þjóðarinnar og sum lög hans kann hvert mannsbarn í landinu. Stíll hans er sérstæður, en þó þjóðlegur. Höfuðeinkenni hans er léttleiki og fínleiki. Einkenni á flestum íslenzkum tónskáldum, a. m. k. þeim, sem lítillar menntunar hafa notið, er sá, að lög þeirra eru angurvær, þunglamaleg, oftast í moll, raunaleg. Þetta er víst eðlislægt hjá okkur Íslendingum og á rætur í löngum skammdegisnóttum, myrkri og vondum veðrum. - Friðrik er allt öðruvísi. Hann sló á nýjan streng strax með fyrstu lögum sínum. Það er bjart yfir þeim, þau eru laus við væmni, skynsamleg, hnitmiðuð, en fela þó í sér undiröldu ríkra tilfinninga, einföld í framsetningu og vel raddsett. Sem tónskáld fyrir æskulýðinn stendur Friðrik fremstur allra Íslendinga og minnir á Felix Körling hinn sænska, þótt þeir séu í ýmsu ólíkir. Sem dæmi má nefna: „Fyrr var oft í koti kátt“ og „Syngjum glaðir göngusöng“. Einkar hugþekk eru líka sum lög hans við náttúrulýsingartexta og stemningar, svo sem „Hafið, bláa hafið“, „Hvíl mig rótt“, „Hrím“, „Fjallabyggð“ og „Á fjöllum friður“. Þá eru ekki síðri lög með þjóðsagnablæ, eins og „Hóladans“, „Rökkvar í hlíðum“ og „Abba labba lá“. - Hin prentuðu sönglög Friðriks eru að mestu útseld. Mörg lög hans eru í handriti, en eiga efalaust eftir að verða ,vinsæl við kynningu. Sum af lögum hans eru orðin kunn erlendis og hafa birzt í söngbókum á Norðurlöndum.</p> <p>Kona Friðriks var Guðlaug Pétursdóttir (fædd 12. nóv. 1879, dáin 18. okt. 1966), hreppstjóra á Grund í Skorradal, Þorsteinssonar. Þau Friðrik eignuðust eina dóttur, er dó ung. Frú Guðlaug var hlédræg, en listfeng gáfukona, sem var manni sínum traustur félagi í erfiðu og erilsömu starfi. Á fyrri árum kenndi hún teikningu við barnaskóla Hafnarfjarðar. Einnig kenndi hún um langt skeið handavinnu í einkatímum. Hún var ágætlega skáldmælt og samdi Friðrik lög við mörg ljóða hennar, oft var það líka, að hún samdi ljóð við lög hans. Helzta lag/ljóð þeirra er héraðssöngur Hafnfirðinga: „Þú hýri Hafnarfjörður“, hugþekkt ljóð við tígulegt lag Friðriks, sem allir kunna og syngja á mannfundum. Friðrik hafði mikinn áhuga á náttúrufræði og sögu: Mörg spor áttu þau hjónin um óbyggðir Reykjanesskagans. Friðrik var talinn þekkja flestum betur örnefni þar og náttúru.</p> <p>Síðustu æviárin bjuggu hjónin á ellideild „Sólvangs“ í Hafnarfirði. Þar höfðu þau rúmgóða stofu með eigin búslóð. Áður en þau fluttu höfðu þau gefið Hafnarfjarðarbæ svo til allar eigur sínar. Nótna- og bókasafn þeirra fór í bókasafn Hafnarfjarðar og er þar nú starfrækt sérstök tónlistardeild með nótnabóka- og hljómplötuútlánum. Deildin ber nafn hans, ,;Friðriksdeild“. Einnig var af gjafafé þeirra stofnaður sjóður til styrktar og eflingar söngmennt í Hafnarfirði.</p> <p>Á áttræðisafmæli Friðriks var honum margvíslegur sómi sýndur. Bæjarstjórnin hafði látið gera málverk af þeim hjónum, sem afhent var þann dag. Helgitónleikar voru haldnir í Hafnarfjarðarkirkju. Þar voru flutt eingöngu lög eftir Friðrik. Þeir tónleikar voru síðar endurteknir í dómkirkjunni í Reykjavík á vegum F.Í.O. Friðrik andaðist að „Sólvangi“ 28. maí 1962, en Guðlaug lifði mann sinn um rúm 4 ár, dáin 1966 sem fyrr segir. Þau voru jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Friðrik var sérstæður persónuleiki, eftirminnilegur við fyrstu sýn, hvað þá nánari kynni. Hann var lundfastur og trúr köllun sinni, þótt oft blési óbyrlega. Brautryðjendastarf er alltaf erfitt. - Hann sagði eitt sinn : „Við Íslendingar eigum að hlúa að því, sem íslenzkt er. Hinir - þ.e. útlendingar - sjá um sig og sína menn. Ef við sjálfir leggjum ekki neina rækt við tónlistarviðleitni okkar, er naumast að vænta þess, að aðrir geri það." - Friðrik lagði merkan skerf til íslenskrar tónlistar og til ræktunar henni.</p> <p align="right">Páll Kr. Pálsson. Organistablaðið. 1. september 1972, bls. 2-5.</p>

Staðir

Gaulverjabæjarkirkja Organisti 1906-1908
Hafnarfjarðarkirkja Organisti 1914-1950
Garðakirkja Organisti 1914-1914

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti , tónlistarmaður og tónskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 5.05.2017