Björn Ingiberg Jónsson 16.10.1966-

Björn Ingiberg nam við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Hann útskrifaðist með einsöngvarapróf frá tónlistarháskólanum Trinity College of Music (nú Trinity Laban Conservatoire of Music and Dance) í London árið 1994. Björn fékk námsstyrk frá tónlistarháskólanum Guildhall School of Music and Drama í London og lauk hann námi frá óperudeild skólans árið 1996.

Aðalkennari hans þar var Thomas Hemsley CBE. Björn sótti söngtíma hjá Sigurði Demetz og að undirlagi hans var honum boðið til Ítalíu til að syngja hlutverk Nemorino í óperunni Ástardrykknum eftir Donizetti undir leiðsögn Katiu Ricciarelli. Uppfærslan var sýnd í ítalska ríkissjónvarpinu RAI 3. Í framhaldi af því sótti Björn einkatíma bæði hjá Katiu Ricciarelli og síðar hjá Franco Corelli í Mílanó. Við Íslensku óperuna hefur Björn sungið hlutverk Normanno í Luciu di Lammermoor, Ferrando í Cosi fan Tutte og Nemorino í Ástardrykknum. Björn var fastráðinn við óperuna í Malmö þar sem hann söng í mörgum óperuuppfærslum og á tónleikum m.a. hlutverk Tonio í Dóttur herdeildarinnar. Fyrir frammistöðu sína í því hlutverki hlaut hann lofsamlega dóma. Önnur hlutverk Björns eru m.a. Nadir í Perluköfurunum, Carlo í Linda di Chamounix, Le père í Dialogues des Carmelites, Pong í Turandot og Beppe í Pagliacci. Af kirkjulegum verkum hefur hann m.a. sungið messur og óratoríur eftir Bach, Händel, Haydn, Rossini, Dvořák og Mozart á Íslandi og víða um Evrópu. Björn hefur tekið þátt í frumflutningi íslenskra verka, s.s. Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, óratoríunni Ceciliu eftir Áskel Másson og óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson í Skálholti síðastliðið sumar.

Af vef Íslensku óperunnar (17. mars 2016)

Staðir

Menntaskólinn í Reykjavík Nemandi -
Guildhall School of Music and Drama Háskólanemi -1996
Trinity tónlistarháskólann í London Háskólanemi -1994

Tengt efni á öðrum vefjum

Háskólanemi, nemandi og söngvari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.03.2016