Helga Rós Indriðadóttir 22.06.1969-

Helga Rós Indriðadóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan tónmenntakennaraprófi árið 1992 og söngkennara- og einsöngvaraprófi árið 1996. Þá tók við þriggja ára nám við Tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún stundaði nám við ljóðadeild og lauk árið 1999 mastersprófi frá óperudeildinni.

Á lokaári námsins var hún fastráðin við Óperuhúsið í Stuttgart og debúteraði sem Freyja í Rínargulli Wagners. Næstu átta árin söng hún fjölda hlutverka m.a. Nínettu í Ástin á appelsínunum þremur, Antoníu í Ævintýrum Hoffmanns, Zerlinu í Don Giovanni, Ines í Il Trovatore, Ortlinde í Valkyrjunum, Woglinde í Ragnarökum og Florice í frumflutningi á Pastorale eftir Gerard Pesson. Auk þess var hún gestasöngvari í óperuhúsunum í Bonn, Wiesbaden og Karlsruhe. Í DVD útgáfu og hljóðritun Naxos af aldamótauppsetningu Niflungahrings Wagners frá óperunni í Stuttgart er Helga Rós í hlutverki Freyju í Rínargullinu og Woglinde í Ragnarökum.

Helga Rós hefur sungið Sálumessur Mozarts og Verdis, Sköpunina, Árstíðirnar og Teresíumessu Haydns, Elías eftir Mendelssohn, Saul eftir Händel, Missa Solemnis og 9. sinfóníu Beethovens, f-moll messu Bruckners, Orfeo eftir Pergolesi og Les Illuminations eftir Britten. Hún hefur einnig sungið fjölda ljóða- og kammertónleika bæði hér heima og erlendis m.a. til að fylgja eftir geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar sem hún gaf út ásamt Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara árið 2009.

Sumarið 2011 stóð hún fyrir tónleikunum „Óperutöfrar“ í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Á árunum 2010 til 2012 stýrði Helga Rós Karlakórnum Heimi í Skagafirði og tók við stjórn Skagfirska kammerkórsins í ársbyrjun 2013 ásamt því að stunda kennslu við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Í mars 2013 söng Helga Rós hádegistónleika ásamt Antoniu Hevesi píanóleikara á vegum Íslensku óperunnar og haustið 2014 söng hún hlutverk Elisabettu í Don Carlo eftir Verdi hjá Íslensku óperunni.

Af vef Íslensku óperunnar (15. mars 2016)

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -1996
Tónlistarskóli Skagafjarðar Tónlistarkennari -

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.03.2016