Jón Árnason 1665-08.02.1743

<p>Jón var sonur Árna Loftssonar, prests í Dýrafjarðarþingum og víðar, og k.h. Álfheiðar Sigmundsdóttur.</p> <p>Jón lærði í Skálholtsskóla, varð stúdent og fór utan 1690 og lærði guðfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hann kom til landsins 1692 og varð þá heyrari (kennari) í Hólaskóla en rektor 1695-1707. Hann vígðist sem prestur á Stað í Steingrímsfirði 1707.</p> <p>Hinn 25. mars 1722 varð Jón biskup í Skálholti eftir lát Jóns Vídalín og gegndi því embætti til dauðadags. Hann var talinn ágætlega vel að sér og þótti bera af í guðfræði, stærðfræði, rímfræði og söng, en hann kenndi sjálfur söng í Skálholtsskóla.</p> <p>Hann þótti strangur reglumaður og meðal stjórnsömustu biskupa landsins. Hann var bindindismaður og vildi t.d. hefta innflutning á brennivíni og tóbaki til landsins, en kaupmenn stóðu fast á móti. Hann áminnti marga presta fyrir drykkjuskap og vék ýmsum prestum í biskupsdæmi sínu úr embætti fyrir drykkju og aðra ámælisverða framkomu.</p> <p>Jón var ekki mikið gefinn fyrir fornsögur og veraldlegan skáldskap en var hins vegar fræðimaður á ýmsum sviðum og skrifaði margt. Hann lét prenta margar kennslubækur í Kaupmannahöfn og samdi m.a. latneska-íslenska orðabók.</p> <p>Hann þótti einarður og hreinskilinn en strangur kennari og gerði miklar kröfur til siðferðis skólapilta ekki síður en kunnáttu þeirra. Talið er að aðeins tveir nemendur hans hafi losnað við barsmíðar frá honum. Hann var hinn hagsýnasti búhöldur en var þó fús til að styrkja efnilega stúdenta og þurfandi menn.</p> <p>Kona Jóns biskups var Guðrún Einarsdóttir, f. 1665, d. 20.10. 1752 dóttir Einars Þorsteinssonar biskups á Hólum og Ingibjargar Gísladóttur fyrri konu hans. Jón og Guðrún áttu einn son, Árna heyrara í Skálholtsskóla. Sá var haldinn af melankólísku, segir í Annálum og var ókvæntur og barnlaus.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 8. febrúar 2016, bls. 23</p>

Staðir

Háskólinn í Kaupmannahöfn Háskólanemi 1690-1692
Háskólinn á Hólum Kennari 1690-1695
Háskólinn á Hólum Rektor 1695-1707
Staður Prestur 1707-1722
Skálholt Biskup 1722-03-25-1743-03-08

Gunnlaugur V. Snævarr uppfærði 11.02.2016