Björg Þórhallsdóttir 27.11.1974-

Björg fæddist í Reykjavík en ólst upp á Möðruvöllum í Hörgárdal frá fjögurra ára aldri þar sem faðir hennar varð skipaður sóknarprestur í Möðruvallaklaustursprestakalli árið 1968. Þegar Björg var 18 ára flutti hún til Akureyrar er faðir hennar var kjörinn sóknarprestur við Akureyrarkirkju.

„Ég var í Hjalteyrarskóla til 12 ára aldurs en þar var mamma skólastjóri og pabbi kenndi þar einnig. Síðustu þrjá grunnskólaveturna var ég svo á heimavist í Þelamerkurskóla, lauk stúdentsprófi frá MA 1983, og BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá HÍ 1988.“

Björg var hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum 1988-90, aðstoðardeildarstjóri og deildarstjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri 1990-96 og lektor við HA 1991-96.

Björg stundaði söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Michael Jóni Clarke og Guðrúnu Önnu Kristinsdóttur 1991-96: ,,Árið 1996 snéri ég algjörlega við blaðinu, flutti til Manchester og hóf framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng.“ Björg stundaði nám við Konunglega tónlistarháskólann þar í þrjú ár og lauk námi vorið 1999 með sérstakri viðurkenningu fyrir framúrskarandi túlkun á þýskum ljóðasöng. Hún varð fyrst íslenskra listamanna til að hljóta British Counsil námsstyrk til framhaldsnáms í Englandi.

Björg bjó í Lundúnum á árunum 2000-2007 og naut þar leiðsagnar hins virta söngkennara Dr. Iris Dell’Acqua, sem þjálfar m.a. reglulega Renée Fleming og Cecilia Bartoli. Hún flutti heim 2007 og býr nú á Seltjarnarnesi.

Björg hefur haldið einsöngstónleika og sungið einsöng við fjölda tækifæra hér á landi og vítt og breitt um í Evrópu. Hún hefur sent frá sér þrjár hljómplötur, Það ert þú! Eyjafjörður – ljóð og lag, 2000, með Daníel Þorsteinssyni píanóleikara, Himnarnir opnast – jólaperlur, 2006 og Gullperlur, 2007.

Tríó Bjargar, Elísabetar Waage hörpuleikara og Hilmars Arnar Agnarssonar organista hefur starfað saman til fjölda ára. Þau hafa komið fram saman á ýmsum tónlistarhátíðum hérlendis sem erlendis. Á liðnu sumri voru þau m.a. fulltrúar Íslands á Alþjóðlegu tónlistarhátíðinni í Salisbury á Englandi og komu fram á norrænu þjóðlagahátíðinni Tradition for Tomorrow á Akureyri.

Björg var bæjarlistamaður Akureyrar 2007 og þáði starfslaun listamanna 2013 og 2014.

Söngfugl að norðan – Björg Þóhallsdóttir 50 ára. Morgunblaðið 27. nóvember 2014, bls. 78-79.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 27.11.2018