Geirmundur Valtýsson 13.04.1944-

Geirmundur fæddist á Sauðárkróki 13.4. 1944 en ólst upp á Geirmundarstöðum í Skagafirði. Hann var í Barnaskóla Staðarhrepps og lauk þaðan barnaskólaprófi 1958.

Geirmundur ólst upp við öll almenn sveitastörf, hóf ungur búskap á Geirmundarstöðum, en dró úr bústörfum um skeið frá 1976 er hann hóf störf við Kaupfélag Skagfirðinga og var jafnframt mjög upptekinn í tónlistinni. Hann fargaði fé sínu árið 1988, en kom sér aftur upp fjárstofni 1998 og hefur verið að bæta við sig skepnum í seinni tíð.

Geirmundur var skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga 1976-83 og hefur verið fjármálastjóri kaupfélagsins frá 1983.

Geirmundur lék fyrst fyrir dansi er hann var 14 ára: „Bæði pabbi og mamma voru mjög söngelsk. Pabbi söng í karlakórnum Heimi og mamma í kirkjukór Reynistaðasóknar. Við bræðurnir fengum lánaða harmonikku þegar ég var 11 ára og við æfðum okkur á nikkuna öllum stundum.

Ég fór svo suður part úr tveim vetrum á unglingsárunum og sótti þá gítartíma til Berta Möller sem þá söng með Svavari Gests, og eins hjá Hjörleifi Björnssyni sem var bassaleikari hjá Magnúsi Ingimarssyni. Eins lærði ég á harmonikku hjá Gretti Björnssyni. Að öðru leyti hafði maður þetta í blóðinu og bjargaði sér sjálfur.“

Geirmundur og Gunnlaugur, bróðir hans, léku með danshljómsveitinni Rómó og Geira 1957-65 en trommarinn með þeim var þá Jón Sæmundsson. Síðan tók við hljómsveitin Geislar sumarið 1965, Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar 1965-66 og loks Flamingó 1966-71.

Geirmundur stofnaði síðan eigin hljómsveit 1971, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, sem hann hefur starfrækt og verið hljómsveitarstjóri fyrir allar götur síðan. Hljómsveitin lék fyrst mikið á sveitaböllum á Norðurlandi og Austurlandi.

Árið 1972 söng Geirmundur eigin lög inn á tvær tveggja laga plötur sem Tónaútgáfan á Akureyri gaf út. Á þessum plötum voru lögin Bíddu við, og Nú er ég léttur, en hljómsveitin Trúbrot annaðist undirleik: „Þessi lög slógu svo rækilega í gegn að hljómsveitin fór að spila um allt land. Þá varð ekki aftur snúið. Við höfðum þá meira en nóg að gera, hvort heldur sem var á sveitaböllum, í Reykjavík eða á öðrum þéttbýlisstöðum.“

Hljómsveit Geirmundar hefur síðan leikið fyrir dansi og er enn að. Þá hefur hljómsveitin leikið á Kringlukránni frá 2003.

Geirmundur hefur samið aragrúa laga í gegnum tíðina og sungið inn á fjölda hljómplatna með ýmsum öðrum söngvurum, s.s. Helgu Möller og Ara Jónssyni. Platan hans um síðustu jól, Jólastjörnur Geirmundar Valtýssonar, er 14 platan hans, en lögin á öllum plötunum hafa ætíð verið samin af honum sjálfum.

Geirmundur tók margsinnis þátt í dægurlagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks, sigraði þrisvar í þeirri keppni og hefur tekið þátt í undankeppni Evróvisjón fimm sinnum.

Geirmundur Valtýsson tónlistarmaður 70 ára. Morgunblaðið 12. apríl 2014, bls. 42.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 23.02.2016