Irma Weile Jónsson 06.08.1892-18.09.1969

Móðir Irmu Weile, Stefania Barkany, var af ungverskum aðalsættum og systir Marie Barkany, þekktrar söng- og leikkona í Evrópu á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar. Faðir Irmu, Jens Weile, var dansk-þýskur fornfræðingur og prófessor við háskólann í Písa á Ítalíu og síðar í Flórens og Berlín.

Irma fæddist í Sviss, bjó sem barn á Ítalíu en stundaði píanónám við Stern tónlistarskólann í Berlín þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu við námslok. Kennarar hennar voru þekktir píanóleikarar, Edwin Fischer og Martin Krause sem verið hafði nemandi Franz Liszts. Í framhaldinu lagði Irma stund á söngnám í Berlín og á Ítalíu. Fyrstu opinbera söngtónleika sína hélt hún í Berlín 1926 og söng eftir það víða um Evrópu.

Í aprílmánuði 1938 kom Irma til Íslands til að syngja. Um haustið giftist hún Ásmundi Jónssyni skáldi frá Skúfsstöðum (06.07.1899-18.09.1963) og gerðist íslenskur ríkisborgari. Yfir stríðsárin dvöldu hjónin í Kaupmannahöfn en flutti til Íslands eftir stríð. Á Íslandi lét Irma að sér kveða í menningar- og mannúðarmálum eins og lesa má um í dagblöðum frá 5. og 6. áratugnum. Einnig var hún frumkvöðull í ferðamálum og kynnti Ísland fyrir útlendingum og Evrópu fyrir Íslendingum.

Í Alþýðublaðinu 1953 birtist grein með titlinum: Námskeið til undirbúnings ferðum til Suðurlanda: kennsla í hagnýtum atriðum tungumála og frætt um lönd og merka staði. Þar segir, undir yfirskriftinni Talar átta tungumál:

Frú Irma Weile Jónsson er þaulkunnug í Mið Evrópu og Suður Evrópu. Og auk þess er hún upprunnin úr mörgum löndum. Faðir hennar var dansk-þýzkur að ætt, fornfræðiprófessor í Písa og Flórenz á Ítalíu, en móðir hennar var ungversk leikkona. Sjálf er frúin fræg söngkona, sem hefur dvalizt langdvölum í öllum þeim löndum, sem hún ætlar að kynna. Og hún talar átta tungumál: Ítölsku, þýzku, frönsku, spænsku, ungversku, rússnesku, dönsku og ensku.

Alþýðublaðið 4. febrúar 1953.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.05.2013