Rafn Jónsson (Rabbi, Rafn Ragnar Jónsson) 08.12.1954-27.06.2004

Rafn fæddist á Suðureyri og ólst þar upp til fimm ára aldurs þegar hann fluttist til Ísafjarðar með móður sinni. Þar giftist Ragna Guðmundi H. Gíslasyni, f. 19. maí 1935, d. 29. nóvember 1974, skipstjóra á Ísafirði. Guðmundur tók Rafni sem sínum eigin syni og urðu þeir miklir mátar. Ragna er nú gift Óskari Líndal.

Á æskuárum sínum eyddi hann mörgum stundum hjá ömmu sinni á Suðureyri, Markúsínu Jónsdóttur, f. 20. nóvember 1911, d. 3. júní 1978, þar sem hann var í miklu uppáhaldi.

Rafn hóf sambúð árið 1979 með Friðgerði Guðmundsdóttur, f. 5. desember 1959, sérkennara. Þau gengu í hjónaband 30. desember 1990. Friðgerður er dóttir hjónanna Guðmundar Guðmundssonar, f. 21. október 1913, fyrrv. póstafgreiðslumanns, og Rebekku Jónsdóttur húsmóður á Ísafirði, 21. september 1920. Friðgerður á 3 eldri systkini.

Fyrsta barn Rafns átti hann með Halldóru Gunnlaugsdóttur. 1) Helga Rakel, f. 10. nóvember 1975, sambýlismaður Dagur Kári Pétursson. Börn Rafns og Friðgerðar eru 2) Egill Örn, f. 29. mars 1982; 3) Ragnar Sólberg, f. 2. desember 1986; 4) Rafn Ingi, f. 2. febrúar 1994.

Rafn lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar árið 1971 og lagði síðan stund á kjötiðnaðarnám við Iðnskólann á Ísafirði. Á árunum 1980-1981 lagði hann stund á ásláttarhljóðfæraleik hjá Pétri Östlund í Stokkhólmi. Einnig stundaði hann nám í Kennaraháskóla Íslands 1990-92. Framan af ævi sinni stundaði Rafn ýmis störf meðfram tónlistinni, lengst af verslunarstörf en frá 1985 varð tónlistin aðalstarf hans. Tónlistarferill hans hófst árið 1967 þegar hann stofnaði hljómsveitina Perluna og síðan komu í kjölfarið Náð og Ýr. Ýr var það heillin var fyrsta hljóðritun með Rafni. Hann var síðan meðlimur í fjölmörgum hljómsveitum, m.a. Haukum og einnig stofnandi hljómsveita á borð við: Danshljómsveit Vestfjarða, Grafík, Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns og Galíleó. Eftir Rafn liggur fjöldi platna með þeim hljómsveitum sem hann starfaði í. Auk þess gerði hann þrjár sólóplötur og vann að samstarfsverkefnum með öðrum tónlistarmönnum. Rafn rak um tíma og átti hlut í hljóðverinu Hljóðhamri en rak síðar hljóðver og útgáfufyrirtækið R&R músík á heimili sínu á Norðurbraut 41 í Hafnarfirði.

Rafn varð að láta af hljóðfæraleik vegna veikinda árið 1993 og sneri hann sér þá alfarið að upptökustjórn og útgáfu. Meðal þeirra sem hann starfaði með og gaf út eru Botnleðja, Anna Halldórs, Grafík, Nýdönsk, Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns, Urmull, Sixties, Buttercup, Woofer, Stolía, Noise, Sign auk sólóverkefna með syni sínum Ragnari Sólberg. Á síðasta ári fór Rafn ásamt sonum sínum Agli og Ragnari, og vinum sínum þeim Rúnari Þórissyni, Jóni Ólafssyni og Haraldi Þorsteinssyni til London og hóf upptökur á síðustu plötu sinni í hinu sögufræga Abbey Road-hljóðveri. Rafn vann markvisst að plötunni síðan og er hún væntanleg til útgáfu í haust.

Rafn stofnaði MND-félagið árið 1993 ásamt öðrum og var formaður þess frá upphafi til dánardags. Hann var virkur meðlimur og þátttakandi í réttindabaráttu íslensks tónlistarfólks og tók þátt í starfi ýmissa hagmunasamtaka á þeim vetvangi. Auk þess var hann virkur þátttakandi í starfi stuðningsmannahóps KFÍ.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu. 8. júlí 2004.

Staðir

Iðnskólinn á Ísafirði Nemandi -
Kennaraháskóli Íslands Háskólanemi -
-

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Bítlavinafélagið Trommuleikari 1986-01
Danshljómsveit Vestfjarða Trommuleikari 1977-09
Galíleó Trommuleikari 1989-02
Grafík Trommuleikari
Haukar Trommuleikari 1976-06 1976-12
Náð Trommuleikari 1970 1972
Perlan Trommuleikari 1967 1969
Sálinni hans Jóns míns Trommuleikari 1988-02 1988-09
Ýr Trommuleikari 1973

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 4.02.2016