Jóhannes Eggertsson 31.05.1915-20.11.2002

<p>Jóhannes er fæddur í Reykjavík og ólst þar upp. Hann lærði á celló í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1934 hjá Þórarni Guðmundssyni, föður Leifs tónskálds, þá hjá Hans Stephanek, sem var reyndar fiðlukennari, og loks þýska cellóleikaranum Qëgerës. Ragnar í Smára kostaði nám Jóhannesar en því lauk hann 1938.</p> <p>Jóhannes lék m.a. í Útvarpshljómsveitinni hjá Þórarni Guðmundssyni og á Hótel Borg í mörg ár en með honum þar voru sömu félagar og í Útvarpshljómsveitinni. Hann lék einnig með föður sínum, sem var trompetleikari, í Lúðrasveit Reykjavíkur. Þá var Jóhannes í Sinfóníuhljómsveit Félags íslenskra hljómlistarmanna, sem var stofnuð 1948, en stjórnandi hennar var Róbert Abraham. Sinfóníuhljómsveit Íslands var svo stofnuð tveimur árum síðar og Jóhannes var þar cellóleikari til 1981 er hann hætti störfum fyrir aldurs sakir.</p> <p>Jóhannes kvæntist 22.10.1938 fyrri konu sinni, Steinunni Guðnýju Kristinsdóttur, f. 7.7.1914, d. 2.5. 1988, þau skildu. Foreldrar hennar: Kristinn Kristjánsson og Guðrún Kristjánsdóttir, Brimnesi, Hrísey. Jóhannes kvæntist 31.5.1975 seinni konu sinni, Sigrúnu Ósk Ásgrímsdóttur.f. 3.5.1948.</p> <p>Börn Jóhannesar og Steinunnar Guðnýjar: Eggert Kristinn, f. 2.3. 1938, knattspyrnuþjálfari, búsettur í Reykjavík; Halldór Helgi, f. 18.12. 1939, d. 5.8.1940; Halldóra Helga, f. 13.3.1941, starfsmaður happdrættis DAS, búsett í Reykjavík; Þorvaldur Steinar, f. 3.3.1944, offsetprentari, búsettur í Reykjavík; Pétur Guðbjörn, f. 1.5.1948, verkamaður, búsettur í Reykjavík; Guðbjörg Ingibjörg, f. 7.1.1950, skrifstofumaður hjá Ríkisútvarpinu, búsett í Reykjavík. Dóttir Jóhannesar og Sigrúnar: Guðbjörg, f. 4.6.1970, húsmóðir, búsett á Dalvík.</p> <p>Systkini Jóhannesar: Guðbjörg Þórunn, f. 24.12.1916, d. 1.3.1945, húsmóðir, var búsett í Reykjavík; Einar Guðjón, f. 5.8.1921, fyrrv. verslunarmaður, búsettur í Reykjavík; Margrét, f. 26.7.1925, fyrrverandi tónlistarfulltrúi Kirkjugarða Reykjavíkur, búsett í Reykjavík; Pétur, f. 11.4.1927, d. 14.9.1947.</p> <p>Foreldrar Jóhannesar: <a href="https://www.ismus.is/i/person/id-1011945">Eggert Kristinn Jóhannesson</a>, f. 13.6.1892 í Haga í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu, d. 31.5.1940, járnsmiður og hljómlistarmaður, og Halldóra Jónsdóttir, f. 4.6.1894 í Botni í Dýrafirði, d. 26.2.1985.</p> <p align="right">Jóhannes Eggertsson - 80 ára afmælisfregn. Dagblaðið Vísir - DV. 31. maí 1995, bls. 42.</p> <p>Í Jassblaðinu 1948 er fjallað um Jóhannes:</p> <blockquote>Jóhannes Eggertsson er fæddur í Reykjavík 31. maí 1915. Er hann sonur Eggerts heitins Jóhannessonar, hins þjóðkunna hljóðfæraleikara, svo segja má, að tónlistin sé honum í blóð borin. Hann fékk snemma áhuga fyrir tónlistinni, eins og gefur að skilja, því hún var í hávegum höfð á heimili hans.<br /> <br /> Árið 1935 byrjaði hann að leika dansmúsik opinberlega, og þá fyrst í hljómsveit, er Aage Lorange var með í Iðnó. Lék hann þar á kontrabassa. Veturinn eftir lék hann einnig í Iðnó í hljómsveit, sem kallaði sig „Blue Boys“, en í henni léku auk Jóhannesar, er lék þar á trommur, Henry Rasmussen, píanó, Adolf Theódórsson, altó-saxafón, Skafti Sigþórsson, tenór-saxafón og Guðlaugur Magnússon á trompet. Næstu árin lék Jóhannes á ýmsúm stöðum, t. d. hjá Carl Billich að Hótel Island og Aage Lorange í Oddfellow. Í Oddfellow lék hann á trombón, en á trombón hafði hann lært hjá Þjóðverjanum Helmut Siddicher, sem lék á trompet í hljómsveit Carl Billich. Árið 1938 byrjaði Jóhannes að leika að Hótel Borg, og hefur hann leikið þar að mestu síðan. Byrjaði hann með kontrabassa þar, en í tangóum og völsum lék hann á píanó, og segir Jóhannes, að það sé það versta, sem hann hafi komist í sem hljóðfæraleikari, því hann hafi alltaf gengið skjálfandi að píanóinu. Lék hann aðeins nokkra mánuði á þessi hljóðfæri, en skipti þá yfir á trommur, sem hann hefur eingöngu leikið á síðan í dansmúsik. Jóhannes er mjög góður trommuleikari, og er sagt að enginn hér á landi hafi stöðugra „tempo“, en hann... [<a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5221604">Meira</a>]</blockquote> <p align="right">Íslenskir hljóðfæraleikarar: Jóhannes Eggertsson. Jazzblaðið. 1. september 1948, bls. 4.</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Danshljómsveit Þóris Jónssonar Trommuleikari
Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar Trommuleikari
Útvarpshljómsveitin

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bassaleikari , sellóleikari , trommuleikari og tónlistarkennari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 21.10.2020