Vilhjálmur Björgvin Guðmundsson (Vilhjálmur frá Skáholti) 29.12.1907-02.08.1963

Vilhjálmur fæddist í Skáholti við Bræðraborgarstíg í Reykjavík og kenndi sig jafnan við þann bæ. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson sjómaður og k.h., Sigurveig Einarsdóttir húsfreyja.

Vilhjálmur ól allan aldur sinn í Reykjavík að undanskildum vetrinum 1932-33 er hann lærði við Lýðháskólann í Askov. Hann setti sinn sérstæða svip á mannlífið í Miðbænum þar sem hann starfrækti einhvers konar fornsölu og seldi blóm. Hann var Reykjavíkurskáld í húð og hár, tilfinningaríkt og eirðarlaust náttúrubarn og drykkfellt alþýðuskáld sem lá ekki lengi yfir ljóðum sínum né skeytti um brothætt mannorðið. Þess vegna drógu margir í efa að hann væri alvöruskáld. En þó að hann sé mistækur er hann víða afburðaskáld þegar honum tekst best upp.

Vilhjálmur sendi frá sér ljóðabækurnar Næturljóð, 1931; Vort daglegt brauð, 1935 og 1950; Sól og menn, 1948, og Blóð og vín, 1957. Í Vort daglegt brauð er hann uppreisnarskáld í tvenns konar skilningi: Hann skipar sér á bekk með róttækustu málsvörum verkalýðsbaráttu og heimsbyltingar og ræðst auk þess á hræsni og skinhelgi góðborgaranna með hispurslausum hugleiðingum um sjálfan sig og frelsarann.

Vilhjálmur er oft sjálfmiðaður, sjálfsgagnrýninn og angurvær þó að hann verji breyskan bróður og beri höfuðið hátt í allri sinni ógæfu. Hann var fríður, sviphreinn og höfðinglegur, trúr vinum sínum og barngóður.

Lengi vel voru ljóðabækur Vilhjálms ófáanlegar en árið 1992 gaf Hörpuútgáfan út heildarsafn ljóða hans, Rósir í mjöll. Helgi Sæmundsson bjó bókina til prentunar og skrifaði prýðilegan inngang.

Tvö ljóða Vilhjálms hafa oft verið sungin við gullfalleg lög tveggja vina hans: Ó borg, mín borg, við lag Hauks Morthens, og Litla fagra, ljúfa vina, við lag Sigfúsar Halldórssonar.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 29. desember 2014, bls. 27.


Tengt efni á öðrum vefjum

Ljóðskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.12.2014