Hera Björk Þórhallsdóttir (Hera Björk) 29.03.1972-

Tónlistin er ættarfylgja Heru Bjarkar því móðir hennar Hjördís Geirsdóttir er kunn söngkona og móðurbróðir hennar Gissur Geirsson stjórnaði eigin hljómsveit sem starfaði mestmegnis á Suðulandi. Hera Björk byrjaði snemma að koma fram og söng ásamt fleiri krökkum inn á barnaplötu á meðan hún var enn í grunnskóla. Hún vann fyrstu söngkeppni sína 1988 sextán ára gömul og var í öðru sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 1991. Hún fékk hlutverk í nokkrum söngleikjum eftir þetta t.d. í Rocky Horror, Evitu, Litlu hryllingsbúðinni og Kysstu mig Kara. Hera Björk tók þátt í sýningum Sirkus Skara Skrípó 1996-1997 og var í hljómsveitunum Orgill, Sweetý og 17 vélar áður en hún gaf út plötuna Ilmur af jólum sem kom út árið 2000. Önnur platan hennar sem nefndist einfaldlega Hera Björk kom út 2006. Þar söng hún m.a. norska Eurovision lagið Alvedansen á íslensku. Þessa stundina vinnur Hera ásamt Örlygi Smára að þriðju breiðskífu sinni.

Hera Björk hóf nám í söng við Söngskólann í Reykjavík 1989 og naut m.a. kennslu hjá Rut Magnússon, Bergþóri Pálssyni, Elínu Ósk Óskarsdóttur og Ernu Guðmundsdóttur. Árið 2004 var hún í hópi þeirra sem tóku þátt í gerð Medúllu, hinnar metnaðarfullu plötu Bjarkar sem byggði eingöngu á mannsröddinni. Þetta haust flutti um stundarsakir til Kaupmannahafnar til að nema söngtækni við Complete Vocal Institute hjá Cathrine Sadolin sem hefur þróað aðferðir sem hjálpa til við að lagfæra raddbeytingu og tæknilega stjórn á söngröddinni. Þessi aðferð er einnig kjörin til að hjálpa söngfólki við að lagfæra vandamál sem tengjast ofreynslu á raddböndin sem þjaka marga.

Hera útskrifaðist frá CVI skólanum með kennsluréttindi og um árabil fengist við námskeiðahald og kennslu víða um Evrópu. Hera m.a. hefur fengist við að aðstoða og leiðbeina söngfólki og leikurum sem starfa í leikhúsi, sjónvarpi og fást mikið við tónleikahald.

Hera söng lagið lagið Mig dreymdi eftir Óskar Guðnason og Ingólf Steinsson í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007. Árið eftir tók hún þátt í Grand Prix 2008, dönsku undankeppninni fyrir Eurovision, og hafnaði í öðru sæti. Lagið sem hún flutti heitir Someday og er það í miklum metum hjá fjölda aðdáenda keppninnar. Hera tók virkan þátt í flutningi framlaga Íslands í Eurovision í Serbíu 2008 og í Moskvu 2009, sem leiðbeinandi og bakraddasöngkona. Nú er komið að Heru að flytja framlag Íslands í Eurovision þegar hún stígur á svið nr. 17, síðust keppendanna sem taka þátt í fyrri undanúrslitakeppninni sem haldin verður 25. maí Noregi.

Af Tónlist.is 19. febrúar 2014.


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 19.02.2014