Sigurbjörn Þorgrímsson (Bjössi Biogen) 24.02.1976-07.02. 2011

<p>Raftónlistarmaðurinn Sigurbjörn Þorgrímsson, betur þekktur sem Bjössi Biogen [...] var einn af atkvæðamestu og áhrifaríkustu raftónlistarmönnum Íslands. Bjössi, sem var fæddur 1976, byrjaði ferilinn í dúóinu Ajax ásamt Þórhalli Skúlasyni (DJ Thor) í upphafi tíunda áratugarins. Þeir gerðu saman lög sem komu út á safnplötunum Icerave (1992), Egg 94 (1994) og Icelandic Dance Sampler (1996), það þekktasta er hardcore-smellurinn Ruffige sem margir telja eitt af bestu dans- tónlistarlögum Íslandssögunnar.</p> <p>Bjössi tók upp Biogen-nafnið á Egg 94 og notaði það að mestu upp frá því, þó að hann hafi líka notað önnur nöfn, t.d. Aez og Babel. Á þeim átján árum sem Biogen starfaði gerði hann mikið af tónlist og einhver hluti hennar kom út á plötum. Hann gerði a.m.k. þrjár plötur í fullri lengd; – Eternalizer kom út hjá Uni: Form 1999. Árið 2002 gaf hann út You Are Strange og ári síðar kom Mutilyn. Auk þess átti hann lög á safnplötum, m.a. hjá Thule, Elektrolux og Kitchen Motors. Síðustu ár var hann ein af aðalsprautum Weirdcore-hópsins sem hefur staðið fyrir mörgum tónleikum og sent frá sér þrjár safnplötur sem Biogen átti lög á. Tónlist Bjössa þróaðist mikið og kom við í mörgum helstu stefnum raftónlistarinnar. Hún var stundum sveimkennd og lágstemmd, stundum hörð og aggressíf. Stundum dansvæn, stundum ekki, en alltaf leitandi og framsækin. Biogen var líka mikill húmoristi og það heyrist í sumum verka hans.</p> <p>Bjössi Biogen var frumkvöðull og hafði mikil áhrif á raftónlistarsenuna. Það er samt ólíklegt að þú finnir mikið af tónlistinni hans í næstu plötubúð. Mörg þekktustu laga hans má samt heyra á YouTube og bæði You Are Strange og Mutilyn eru til á gogoyoko og Icerave á Tónlist.is. Auk þess er efni með honum á SoundCloud.</p> <p align="right">Frumkvöðuls minnst. Trausti Júlíusson. Fréttablaðið. 17. mars 2011, bls. 53.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 11.12.2013