Jón Þorleifur Steinþórsson (Jón Skuggi) 20.09.1958-

Ég er fæddur og uppalinn á lögbýlinu Skuggahlíð í Norðfirði. 15 ára gamall (1973) fór ég að leika á dansleikjum og tónleikum með ýmsum hljómsveitum. Þekktust þeirra var Amon Ra frá Neskaupstað (1976-1981). Ýmsar hljómsveitir litu svo dagsins ljós í framhaldi af því og var tónlistin alltaf rauði þráðurinn hjá mér.

Sumarið 1984 urðu straumhvörf á ferli mínum er ég byrjaði að vinna við hljóðupptökur í Stúdíó Mjöt á Klapparstíg og samhliða því með hljóðkerfi þeirra á tónleikum. Hljóðmennskan hefur allar götur síðan verið mitt aðalstarf ásamt því að leika á bassa með ýmsum hljómsveitum – Oxsmá 1985, Langi Seli og Skuggarnir 1986-2010, Júpíters 1990-1993, Rússíbanar 1996-2010 ofl.

Ég hef starfað sem hljóðmaður á tónleikum, í hljóðverum, í leikhúsum, í sjónvarpi og útvarpi hér heima og erlendis og unnið við allar tegundir tónlistar. Ég hef einnig komið fram sem tónlistarmaður í öllum þessum miðlum. Hef einnig unnið sem tæknimaður á hóteli, á ráðstefnum og unnið við beinar útsendingar á vefnum. Ég hef einnig verið ráðgjafi varðandi hljómburð og tækjakaup fyrir ýmsa skemmti og tónleikastaði, leikhús og kirkjur. Ég hef síðustu 22 ár farið með ýmsum hljómsveitum (Sykurmolarnir, Gusgus, Mezzoforte, Infernó 5, Júpíters, Trabant ofl.) í tónleikaferðir og á stórar tónlistarhátíðir erlendis – Roskilde, Sziget, Glastonbury, Benecassim, Tea in the park, Hurricane, Melt, V-festival o.m.fl.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tónlist og öllu sem henni tengist. Foreldrar mínir léku bæði á hljóðfæri, sungu í kórum og tóku þátt í áhugaleikhúsi svo að ég drakk snemma í mig tón og sviðslistabakteríuna. Íslensk tónlist og tónlistarsköpun hefur verið mitt séráhugamál. Ég hef verið svo lánssamur að fá að taka þátt í gríðarlega mörgum tónlistarverkefnum, sem tónlistarmaður, tæknimaður og/eða upptökustjóri. Sem tónlistarmaður hef ég leikið á raf og kontrabassa, klassíska tónlist, jass, blús, rokk, heimstónlist, leikhústónlist omfl. (Sinfóníuhljómsveit Íslands, Skólahljómsveit Tónsk. Sigursveins, Langi Seli og Skuggarnir, Júpíters, Rússíbanar ofl.). Ég hef spilað í sýningum, á stóra sviði Þjóðleikhússins, íslenska Dansflokksins, og Stúdentaleikhússins, samið tónlist fyrir Leikfélag Hafnarfjarðar og Leiklistarskóla Íslands. Sem tæknimaður hef ég unnið með næstum öllu íslensku tónlistarfólki, bæði sem einstaklingum og sem tónlistarhópum, í öllum geirum tónlistar, í sjónvarpi, hljóðveri og/eða á tónleikum.

Af vef hljóðversins Mix.ehf (2. maí 2015).

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Langi Seli og Skuggarnir Bassaleikari 1988

Tengt efni á öðrum vefjum

Bassaleikari, hljóðmaður og upptökustjóri
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 2.05.2015