Sveinbjörn Sveinbjörnsson 28.06.1847-23.02.1927

Fyrsta tónskáld Íslendinga, píanóleikari, píanókennari og höfundur þjóðsöngsins.

Árið 1922 veitti Alþingi höfundi þjóðsöngsins heiðurslaun. Hið aldraða tónskáld var þakklátt og ákvað að flytjast búferlum heim til Íslands fyrir fullt og allt. Sveinbjörn kom með frú sína til Reykjavíkur 27. nóvember 1922 og settist þar að. Hann var þá orðinn 75 ára.

Útivistin var orðin löng. Haustið 1868, fyrir 54 árum, settist hann að í útlöndum. Á þeim tíma hafði hann aðeins tvisvar sinnum heimsótt Ísland; í fyrra skiptið sumarið 1907, er Friðrik VIII konungur kom til landsins - þá var Sveinbjörn heiðursgestur þjóðarinnar sem höfundur konungskantötunnar - og í síðara skiptið sumarið 1914, en þá hafði hann stutta viðdvöl. Og nú var hann kominn heim á æskustöðvarnar í þeirri trú, að þar ætti hann að bera beinin. Þetta fór þó á annan veg. Hann festi ekki yndi í Reykjavík og þráði fjölbreyttara músíklíf. Hann fór því til Kaupmannahafnar haustið 1924 og var ætlunin að dvelja þar vetrarlangt, en það teygðist úr þessu, og sá hann Ísland aldrei aftur, en bjó í Kaupmannahöfn til æviloka.

Rúmum þremur mánuðum eftir að Sveinbjörn var seztur að í Reykjavík, hélt hann hljómleika í Nýja Bíó (3. marz 1923). Sigfús Einarsson byrjar ritdóm sinn um þá með þessum orðum: „Ákaflega er freistandi að vísa allri gagnrýni á bug, þegar segja skal frá hljómleik þessa góðkunna Nestors, þó ekki væri annað en þetta, að sjá hann - göfugmannlega yfirbragðið, barnslegu gleðina yfir viðtökunum og söngnum - þá var það eitt nægilegt til að reka út illu andana, „kritisku þankana“. (Heimir, söngmálablað, 1923)....

Sjá nánar í Tónlistarsögu Reykjavíkur eftir Baldur Andrésson sem vísað er til hér neðar undir Tengt efni á öðrum vefjum

Skömmu eftir andlát Sveinbjörns ánafnaði ekkja hans Eleanor íslensku þjóðinni handrit af verkum tónskáldsins auk annarra muna sem honum tengdust. Laust eftir aldamótin 2000 barst Tónlistarsafni Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni umtalsvert viðbótarefni tengt Sveinbirni frá Eleanor, barnabarni tónskáldsins, sem þá bjó í Calgary, Kanada.

Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari, píanóleikari og tónskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019