Karl Ottó Runólfsson (Karl O. Runólfsson, Kalli Run) 24.10.1900-29.11.1970

Karl Ottó Runólfsson tónskáld fæddist í Reykjavík 24.10. árið 1900. Hann var sonur Runólfs Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og k.h., Guðlaugar M. Guðmundsdóttur húsfreyju.

Fyrri kona Karls var Margrét Kristjana Sigurðardóttir sem lést kornung, 23 ára, eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni kona Karls var Helga, dóttir Kristjáns Þorkelssonar, hreppstjóra í Álfsnesi við Kjalarnes.

Karl lærði prentiðn í Gutenberg, lauk sveinprófi 1918 og starfaði við prentverk til 1925. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði þar á trompet hjá Lauritz Sörensen, lærði á fiðlu hjá Axel Jörgensen og lærði að útsetja lög fyrir lúðrasveitir hjá Dyring. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1934-39, lærði þar tónsmíðar hjá Frans Mixa og að útsetja lög fyrir hljómsveitir hjá Victor Urbancic.

Karl kenndi og stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar 1920 og 1922-23, Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1924-25 og 1928-29, Lúðrasveit og Hljómsveit Akureyrar 1929-34, var hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1934-35 og meðlimur Lúðrasveitar Reykjavíkur frá stofnun og stjórnandi hennar 1941-42. Lengst af stjórnaði Karl þó Lúðrasveitinni Svani eða í 21 ár, auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur. Þá lék hann með danshljómsveitum, víða um land, á sínum yngri árum.

Karl kenndi hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-64, stundaði einkakennslu á fiðlu og trompet og lék sjálfur á trompet í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-55.

Karl var stofnandi og síðar formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur í mörg ár og formaður Landssambands íslenskra lúðrasveita í tíu ár. Hann var mikilsvirt tónskáld sem samdi flestar tegundir tónsmíða, þ.á m. nokkur ástsæl sönglög og raddsetti mikinn fjölda þjóðlaga.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 24. október 2013, bls. 61.

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi 1934-1939

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
1934 1939
Lúðrasveit Ísafjarðar Stjórnandi 1921-07 1923-09
Lúðrasveit Reykjavíkur Trompetleikari 1922
Lúðrasveitin Svanur Stjórnandi 1938 1961
Skólahljómsveit Austurbæjar Stjórnandi 1956 1971
Útvarpshljómsveitin Trompetleikari

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Prentari, stjórnandi, trompetleikari, tónlistarkennari, tónlistarnemandi og tónskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.12.2017