Sigurður Demetz Franzson 11.10.1912-07.04.2006

<p>Sigurður Demetz Franzson, óperusöngvari og söngkennari fæddist 11. október 1912 í St. Úlrik í Grödendal, þar í Ölpunum á landamærum Austurríkis og Ítalíu sem heitir Suður-Tíról, sonur hjónanna Franz og Mariu Demetz.</p> <p>Sigurður Demetz nam söng á Ítalíu og sönggáfa hans og hæfileikar vöktu athygli tónlistarmanna á borð við dr. Karl Böhm og Herbert von Karajan. Hann söng víða um Evrópu við góðan orðstír en e.t.v. skein frægðarsól hans skærast þegar hann söng í Scala-óperunni í Mílanó á árunum í kringum 1950.</p> <p>Sigurður Demetz fluttist til Íslands frá Ítalíu árið 1955 og hóf söngkennslu víða um land auk þess sem hann söng hér nokkur óperuhlutverk og á tónleikum og stjórnaði kórum. Jafnframt varð hann vinsæll fararstjóri útlendinga í kynnisferðum um landið.</p> <p>Ýmislegt varð Sigurði Demetz að fótakefli á ferlinum á umbrotatímum í álfunni. Styrjaldir og veikindi öftruðu honum, en hann taldi það gæfu sína að hafa borist til Íslands eins og fyrir guðlega forsjón. Frá því segir hann í ævisögu sinni sem kom út árið 1995.</p> <p>Sigurður Demetz kvæntist Þóreyju Sigríði Þórðardóttur árið 1960. Hún lést árið 1992. Systkini Sigurðar Demetz, öll yngri, eru Ulrike, læknisfrú, Ivo, forstjóri, Franz, listamaður, og Giancarlo, húsvörður, sem er látinn.</p> <p>Með Sigurði Demetz er genginn merkur listamaður og söngfrömuð- ur, lærimeistari margra kunnustu óperusöngvara íslensku þjóðarinnar. Hann var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu söngmenntunar á Íslandi, riddarakrossi ítalska ríkisins og kjörinn heiðursborgari í fæðingarbæ sínum. Hann var verndari Nýja söngskólans Hjartansmáls [nú Söngskóla Sigurðar Demetz].</p> <p align="right">Úr andlátsfregn í Morgunblaðinu 8. apríl 2006, bls. 2.</p> <blockquote>... Sigurður Demetz sem kenndi hálfri þjóðinni að syngja og uppgötvaði ýmsa stórsöngvara, kom hingað árið 1955 fyrir tilviljun eftir því sem hann hefur sjálfur sagt frá. Sigurður var frá Suður-Týról, sem var hluti af Austurríki þar til eftir heimsstyrjöldina fyrri en tilheyrði Ítalíu eftir það. Sigurður lærði söng fyrst og fremst á Ítalíu og kynntist óperulífinu af eigin raun, bæði þar og í Dresden í Þýskalandi. Hann starfaði í virtum óperuhúsum en hörð lífsbarátta á Ítalíu á stríðsárunum og fyrstu árunum eftir stríðið færði hann Íslendingum. Hann kynntist íslenskri konu, Svanhvíti Egilsdóttur söngkonu, sem sótti söngtíma hjá sama kennara og hann, en var fljótlega farin að læra hjá Sigurði sjálfum. Segja má að hún hafi flutt hann inn, því hún safnaði saman hópi fólks sem vildi læra að syngja heima á Íslandi og gerðust nemendur hans. Sigurður varð fljótlega mjög ástsæll kennari, kenndi fyrst í Reykjavík í nokkur ár og stofnaði hér Söng- og óperusöngskólann en flutti síðan til Akureyrar og starfaði þar í rúman áratug. Þar var hann meðal annars kennari Kristjáns Jóhannssonar stórtenórs og hann kom honum til náms á Ítalíu. Eftir að hann fluttist aftur til Reykjavíkur kenndi hann meðal annars þeim bræðrum Gunnari og Guðbirni Guð- björnssonum tenórum og Guðjóni Grétari Óskarssyni, bassa...</blockquote> <p align="right">Úr Morgunbalaðsgrein Ingibjargar Eyþórsdóttur: Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld Grein III: Breytt heimsmynd í kjölfar velmegunar.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.07.2015