Guðlaugur A. Magnússon 16.12.1902-13.11.1952

Guðlaugur A. Magnússon fæddist 16. desember 1902 í Svínaskógi, Fellsstrandarhreppi. Foreldrar hans voru Magnús Hannesson bóndi fæddur 22. janúar 1866 í Guðlaugsvík á Ströndum dáinn 6. apríl 1945, og kona hans Kristín Jónsdóttir fædd 30. maí 1873 á Úlfarsfelli í Helgafellssveit dáin 28. janúar 1958.

Hugur Guðlaugs stóð alla tíð til náms í hljóðfæraleik. Systur hans Hansína og Borghildur, sem hafði greiðasölu á Ísafirði, ákveða að styðja hann til náms í hljóðfæraleik með því skilyrði að hann nemi einhverja iðn auk hljóðfæranámsins. Á Ísafirði lærði hann því gullsmíði hjá Einari Oddi Kristjánssyni og hjá Karli Ó. Runólfssyni lærði hann að leika á trompet. Með þeim Guðlaugi og Karli tókst mikil vinátta og samdi Karl sómötu sína fyrir trompet og píanó til vinar síns Guðlaugs. Lúðrasveit Ísafjarðar var fyrsta hljómsveitin sem hann lék með. Árið 1926 fór hann utan til Danmerkur til framhaldsnáms í trompetleik og var Lauritz Sörensen þekktur trompetleikari kennari hans. Guðlaugur var talinn mjög fær og teknískur hljóðfæraleikari.

1924 fluttist Guðlaugur alkominn suður og setti á fót gullsmíðaverkstæði í Hafnarfirði. 1927 fluttist hann til Reykjavíkur og rak verkstæði sitt fyrst við Bergstaðastræti. Guðlaugur var virkur félagsmaður í Lúðrasveit Reykjavíkur þar sem hann lék oftast fyrsta trompett eða flugelhorn auk þess sem hann gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. 1932 tekur hann þátt í stofnun Félags íslenskra hljómlistarmanna og sat í stjórn félagsins fyrstu árin. 1944 var „Hljómsveit F.Í.H.“ stofnuð sem var arftaki „Hljómsveitar Reykjavíkur" og vísir að „Symfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins" sem nú heitir „Symfóníuhljómsveit Íslands". Jafnframt því að spila í lúðrasveitum og í symfóníunni spilaði Guðlaugur alla tíð með ýmsum dans og djasssveitum.

Guðlaugur kvæntist 1929 Maríu Hermannsdóttur fædd 4. september 1905 á Ketilseyri við Dýrafjörð. Þau eignuðust 4 börn: Reyni fæddur 3. apríl 1930, Óttar Hermann fæddur 8. október 1931, Jónínu Ernu fædd 15. nóvember 1933 og Magnús Hauk fæddur 20. desember 1943. 1936 heldur hann á ný til náms í Danmörku, að þessu sinni til framhaldsnáms í silfursmíði. Þar kynnti hann sér smíði borðbúnaðar og flutti þá þekkingu með sér heim. Einnig fékk hann hingað útlendinga til starfa við að koma upp framleiðslu á borðbúnaði og skyldum vörum úr silfri.

1947 gerir hann verkstæði sitt að hlutafélagi „Gull- og silfursmiðjan Erna". Uppúr því eykur hann vélakost smiðjunnar og flytur meðal annars inn þá stærstu pressu sem notuð hefur verið við þessa iðju hérlendis með 200 tonna höggþunga á fersentimeter. Smiðjan var búin fullkomnustu tækjum sem þekktust í þá daga og eru margar vélanna í fullri notkun enn í dag rúmum 50 árum síðar. Smiðjan hafði það verkefni að smíða vörur fyrir verslunina sem alla tíð hefur borið nafn Guðlaugs. Á blómatíma fyrirtækjanna voru þau meðal öflugustu fyrirtækja í Reykjavík og náði smíði silfurmuna mest 2 tonnum árlega. Silfurmunir frá Guðlaugi eru til á flestum heimilum landsins og margir erlendir fagurkerar hafa komið sér upp silfri frá Guðlaugi, meðal þeirra er fjöldi Vestur-Íslendinga sem safna íslensku silfri og segja það bera af öllu því sem í boði sé vestra hvað varðar hönnun og handverk. Mörg íslensk sendiráð eru búin silfri frá Guðlaugi og bera hróður íslenskra silfursmiða víða.

Frá gamla bænum í Svínaskógi til þess að setja í gang stóriðju þess tíma sem hálfri öld síðar er blómleg iðja vegna framsýni og góðs grundvallar er einsog saga þjóðarinnar. Í einu skrefi flutti þjóðin úr torfbæjunum, sem höfðu verið nánast óbreyttir frá landnámi, inn í „nútímann“.

Maríu konu sinni hafði Guðlaugur lofað að minnka spilamennskuna þegar hann yrði fimmtugur þar sem álagið var mikið af því að starfa á tveimur vígstöðvum. Rúmum mánuði fyrir fimmtugsafmælið lést Guðlaugur, 13. nóvember 1952. Honum entist því ekki aldur til að uppfylla loforðið...

Af vefnum „Gull- og silfusmiðjan ERNA“.


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.09.2013