Magnús Blöndal Jóhannsson 08.09.1925-01.01.2005

Magnús Blöndal Jóhannsson fæddist á Skálum á Langanesi 8. september 1925. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi að kvöldi 1. janúar síðastliðins. Foreldrar hans voru Jóhann Metúsalem Kristjánsson kaupmaður og Þorgerður Magnúsdóttir húsmóðir.

Magnús var þríkvæntur. Hann kvæntist 5. júlí 1947 Bryndísi Sigurjónsdóttur, f. 1928, d. 1962. Synir þeirra eru Jóhann Magnús, börn hans eru Brynjar f. 1968, Bryndís, f. 1970, Magnús Ómar, f. 1972, Valdimar, f. 1975, og Jóhann, f. 1977, og Þorgeir, börn hans eru Jóhann Svavar, f. 1974, Davíð Blöndal, f. 1988, og Kristín Diljá, f. 1991.

Magnús kvæntist 16. desember 1967 Kristínu Sveinbjörnsdóttur f. 1933, þau skildu. Sonur þeirra er Marinó Már, börn hans eru Kristján Jökull, f. 2002, og óskírð, f. 2004. Eiginkona Magnúsar er Hulda Sassoon.

Magnús nam við Juilliard-tónlistarskólann í New York 1947-54. Hann var tónlistargagnrýnandi á dagblaðinu Vísi frá 1954-57; píanóleikari og aðstoðarkórstjóri við Þjóðleikhúsið 1956-61 og starfsmaður tónlistardeildar Ríkisútvarpsins 1955-72. Eftir Magnús liggja hátt í hundrað verk, sönglög, kvikmyndatónlist, leikhústónlist, hljómsveitar- og kammertónlist. Framan af samdi hann aðallega sönglög og einnig einstaka hljóðfæraverk, en um 1950 fór hann að gera tilraunir með 20. aldar tónsmíðatækni. Magnús mun hafa verið fyrstur Íslendinga til að yrkja undir afströktum tólftónahætti Schönbergs, 4 Abstraktsjónir frá árinu 1950. Hann var einnig fyrstur hérlendis til að semja raftónlist með verki sínu Elektrónísk stúdía frá árinu 1959. Meðal þekktustu verka Magnúsar á sviði kvikmyndatónlistar er tónlist hans við kvikmynd Ósvaldar Knudsen Surtur fer sunnan og samnefnt lag hans úr myndinni Sveitin milli sanda.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu 6. janúar 2005, bls. 29.

Tónlistarsafn Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni varðveitir margvísleg gögn tengd Magnúsi og ferli hennar. Nefna má hljóðritanir, tónleikaskrár, sendibréf, blaðaúrklippur, ljósmyndir og lista yfir verk hans.

Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019

Staðir

Juilliard tónlistarháskólinn Háskólanemi 1947-1954
Þjóðleikhúsið Tónlistarstjóri 1956-1961
Ríkisútvarpið 1955-1972

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019