Einar Kristján Einarsson 12.11.1956-08.05.2002

<p>Einar Kristján var alinn upp við músík og bókmenntir. Á æskuheimili hans á Akureyri hljómaði harmónikkan og þar ríkti gleði í leik og söng. Nikkan heillaði þó ekki því tími rokksins fór í hönd. Einar fór fljótlega að tileinka sér það framsæknasta í þeim geira og spila á gítar í hljómsveitum. Það leiddi svo til náms í klassískum gítarleik, fyrst á Akureyri og svo hjá Gunnari H. Jónssyni í Tónskóla Sigursveins í Reykjavík. Á þessum tíma var Gunnar líkt og ómælisuppspretta gítarmenningar og til hans þyrptust menn úr öllum tónlistargeirum og í þeim var kveikt ljós og klassískur áhugi.</p> <p>Einar útskrifaðist úr Tónskólanum 1982 og fór til framhaldsnáms til hins virta gítarkennara Gordon Crosskey í Manchester þar sem hann dvaldist næstu árin. Eftir heimkomuna tók við kennsla og tónleikahald. Auk einleiks- og kammertónleika spilaði hann í þjóðlagabandinu Keltum og stofnaði hina ástsælu Rússíbana sem hafa markað spor í músíklífið á undanförnum árum.</p> <p>Það kom fljótlega í ljós hve góður kennari Einar var þar sem nemendur hans tóku að blómstra og litu mjög upp til meistara síns. Sem túlkandi var Einar skemmtileg og óvenjuleg blanda. Leikur hans einkenndist af dirfsku og áræðni en jafnframt mjög fínlegum og viðkvæmnislegum hljóðfæraleik. Þessir eiginleikar eða andstæður kalla á andlega glímu sem er í reynd ein forsenda listsköpunarinnar. Þetta og reyndar margt fleira, svo sem agi, smekkvísi, eðlislæg hlýja og húmor gerði Einar að einum af okkar bestu listamönnum.</p> <p>Þrátt fyrir ótímabært fráfall Einars árið 2002 kom Einar ótrúlega miklu í verk á þeim tíma sem honum var gefinn hér á meðal okkar.</p> <p>Mér er minnisstætt árið 2000 þegar hann kom frá tónlistarfestivali í Skotlandi. Þetta hafði verið upplifun og hann hafði fengið frábærar viðtökur og viðurkenningu Það var þá í kjölfarið sem hann hljóðritaði þennan hljómdisk sem við fylgjum hér úr hlaði.</p> <p>Ég hef þá trú að þessar hljóðritanir muni verða kærkomin viðbót í safn allra sem unna fagurri tónlist og ekki síst vönduðum gítarleik.</p> <p align="right">Af FaceBook síðu til minngar um Einar Kristján. Örn Magnússon – ritað fyrir útgáfu Finisterre 2006.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 9.11.2013