Ólafur Friðriksson 16.08.1886-12.11.1964

<blockquote>Ólafur Friðriksson fæddist á Eskifirði 16.8. 1886. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Möller, póstafgreiðslumaður á Eskifirði og síðar póstmeistari á Akureyri, og Ragnheiður Jónsdóttir, af Kjarnaætt. Eiginkona Ólafs var <a href="https://www.ismus.is/Apps/WebObjects/Tatu.woa/wo/68.0.0.29.1.1.1">Anna Friðriksson</a>, f. Christiansen-Hejnæs [sem stofnaði <a href="https://www.ismus.is/i/location/id-1006638">Hljóðfærahús Reykjavíkur</a> 1916 og rak í áratugi]. <br><br> Ólafur lauk prófum frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1903, var síðan í Kaupmannahöfn og víðar við nám og störf og kynnti sér hugmyndafræði ýmissa sósíalískra hreyfinga. Hann kom síðan heim, gerði stuttan stans á Akureyri, hélt síðan til Reykjavíkur 1915 og átti þar heima síðan. <br><br> Ólafur var einn af atkvæðamestu stofnendum Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins og sat þar í stjórn 1916-24 og 1930-32, og aðalhvatamaður að stofnun Sjómannafélags Reykjavíkur 1915, ritari þess 1915-17 og varaformaður 1928-50. Hann varð fyrsti ritstjóri Alþýðublaðsins, 1919 og í hópi róttækustu málsvava flokksins. <br><br> Ólafur varð helsti forsprakki „Hvíta stríðsins“, nokkurra daga óeirða við hús hans að Suðurgötu 14, árið 1921 er hann kom heim af Alþjóðaþingi kommúnista í Moskvu með 14 ára rússneskan dreng sem haldinn var smitandi augnsjúkdómi. Landlæknir vildi láta vísa drengnum úr landi en Ólafur neitaði að afhenda drenginn, hélt því fram að þetta væri aðför auðvaldsins að sér og drengnum, og safnaði að sér hópi verkamanna og stuðningsmanna. Kallað varð út liðsauka lögreglunnar til að ná drengnum og deilan varð að alvarlegustu pólitísku róstum sem þá höfðu átt sér stað í Reykjavík. Í kjölfarið var Ólafi vikið úr starfi sem ritstjóra Alþýðublaðsins og hann, Hendrik Ottósson og fleiri dæmdir til fangelsisvistar en voru síðar náðaðir. <br><br> Þrátt fyrir stofnun Kommúnistaflokks Íslands árið 1930 hélt Ólafur tryggð við Alþýðuflokkinn og var aftur ritstjóri Alþýðublaðsins 1939-42. Hann samdi skáldsögur og reyfara, og var bæjarfulltrúi 1918-38.</blockquote> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 16. ágúst 2018</p> <p>... Eftirfarandi er haft eftir verkalýðsforingjanum: „Jafnaðarmönnum hefur aldrei dottið það í hug að ætla að reyna að gera alla jafnháa vexti, eða jafngáfaða – ekki einu sinni jafnríka … það eru ekki jafnaðarmenn sjálfir, sem gefið hafa sér eða stefnunni þetta nafn … en nafnið má hins vegar til sanns vegar færa, þar eð jafnaðarmenn stefna að því takmarki, að allir eigi jafnan kost á því að þroskast eftir því sem hver hefir hæfileika til.“ (<a href="http://herdubreid.is/olafur-fridriksson/">Jafnaðarstefnan á Íslandi, 1919</a>)...</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Rithöfundur , ritstjóri og verkalýðsforingi

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 11.07.2019