Steingrímur Þórhallsson 06.12.1974-

Steingrímur ólst upp á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistaskólann á Húsavík. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur og lauk píanókennaraprófi árið 1998 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Önnu Þorgrímsdóttur píanókennara og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1998 með Martein H. Friðriksson dómorganista sem orgelkennara. Þá um haustið lá leiðin til Rómar í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs, Pontifictio Istituto di Musica Sacra. Þaðan tók hann lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 undir leiðsögn Giancarlo Parodi. Síðustu ár hefur Steingrímur fært sig meira yfir í tónsmíðar og útskrifaðist hann með B.A. próf í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands nú í júní síðastliðnum. Frá haustinu 2002 hefur Steingrímur starfað sem organisti og kórstjóri við Neskirkju ásamt því sem hann hefur starfað með nokkrum tónlistarhópum á Íslandi.

Steingrímur hefur komið fram í mörgum af helstu kirkjum á Íslandi bæði sem einleikari og meðleikari á tugum tónleika. Hann hefur leikið á nokkrum hljóðritunum hjá Ríkisútvarpinu, m.a. tvo orgelkonserta eftir Händel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur komið fram á tónleikum erlendis, m.a. víða á Ítalíu, Finnlandi og Eistlandi. Þá hefur hann getið sér gott orð sem kórstjórnandi, m.a. í Messíasi eftir Händel með kór Neskirkju og Sinfóníuhljómveit áhugamanna.

Úr blaðaauglýsingu fyrir hádegistónleika Steingríms í Hallgrímskirkju 28. júní 2012.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Kórstjóri, organisti, píanóleikari og tónskáld
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 5.11.2013