Jakob Tryggvason 31.12.1907-13.03.1999

Jakob Tryggvason hefur verið organisti við Akureyrarkirkju frá 1941 til haustsins 1986 þegar hann nær áttræður lét þar af störfum.

Jakob er fæddur á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31. jan. 1907, sonur hjónanna Tryggva Jóhannssonar og Guðrúnar Soffíu Stefánsdóttur, er bjuggu þar á Ytra-Hvarfi. Um fermingaraldur hóf hann nám í orgelleik hjá Tryggva Kristinssyni, sem þá var organisti í Svarfaðardal og síðar á Siglufirði. Jakob stundaði síðar nám í Samvinnuskólanum og var jafnframt í orgelnámi hjá Páli Ísólfssyni.

Til Akureyrar flutti hann 1941 og gerðist þar organisti við Akureyrarkirkju og það var hans aðalstarf til1 1986 að undanteknum þremur árum er hann fór til framhaldsnáms við Royal Academy of Music í London 1945-48. „Hann þótti einstakur starfsmaður og afar vandvirkur. Á hann hlóðust margvísleg störf, skólastjórn Tónlistarskólans, hann stjórnaði Gígjunum, kvennakór á Akureyri, æfði og lék undir hjá Smárakvartett og Geysiskvartett og var stjórnandi Lúðrasveitar Akureyrar um tuttugu ára skeið. Hann stjórnaði, leiðbeindi og kenndi nýliðum, sparaði aldrei vinnu og spurði aldrei um laun. Stundum voru meðlimir lúðrasveitarinnar 20-25 en kannske skömmu síðar 12-15. Má því nærri geta um hvernig starfsaðstaða stjórnandans hefur verið við slíkar kringumstæður. En hann gafst ekki upp heldur leiddi sveitina yfir erfiðasta hjallann í sögu hennar,“ segja lúðrasveitarmenn í afmæliskveðju til Jakobs. Jakob hefur unnið mikið starf við útsetningu fyrir kóra og lúðrasveitir.

Sömuleiðis hefur hann samið mörg lög sjálfur en litlu einu komið á framfæri vegna þess hve vandvirkur og kröfuharður hann er við sjálfan sig. Jakob kvæntist Unni Tryggvadóttur Kristinssonar, er getið var hér að ofan og eru börn þeirra hjóna þrjú: Nanna Kristín tónlistarkennari, Soffía Guðrún leikkona og Tryggvi Kristinn fulltrúi hjá Námsgagnastofnun.

Organistablaðið. 1. desember 1987, bls. 10.

Sjá einnig: Kennaratal á Íslandi, 1. bindi bls. 326

Staðir

Akureyrarkirkja Organisti 1941-1986
Urðakirkja Organisti -

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 25.04.2016