Gísli Sigurðsson (Gísli Matthías Sigurðsson, Gísli M. Sigurðsson, Gísli í Eilífðinni) 07.07.1895-16.07.1982

Athugið: Í viðtali í Þjóðviljanum 26. september 1965 (sjá hér neðar undir „Tengt efni á öðrum vefjum“) segist Gísli fæddur 7. júlí 1895. Á Íslendingabók og á gardur.is er Gísli hins vegar sagður fæddur 13. júlí 1982. Þar til annað kemur í ljós er hér litið svo á að Þjóðviljaviðtalið gefi réttan fæðingardag.

Hann er fæddur í Austurbænum, ólst upp þar og stráklingur sótti hann vatn í Móakotslindina, þar sem Kvöldúlfur byggði síðar mikil hús á velmaktartíma sínum.
   Svo gerðist Gísli ekill og flutti möl, sand og sement í hús borgaranna og ók mjólk í hestvögnum austan úr Ölvusi veturinn þegar frostið komst upp í 34 st. Svo sá hann stúlku — þau áttu eina sæng og urðu ásátt um að láta eitt yfir bæði ganga, fluttu suður í Garð, þar sem Gísli ók fyrir frúrnar, „gerði allt fyrir alla", veiddi þorska og tamdi naut, — væri gaman að frétta ef aðrir menn hér á landi hafa tamið naut til reiðar.
   Og svo var það vordag einn að kveðinn var yfir honum „dauðadómur", og hann varð að hverfa frá 7 móðurlausum börnum og setjast að innan veggja Vífilstaðahælis, þar sem hann lifir enn góðu lífi, og þar mun hann ellidauður verða á sínum tíma.

Ökumaður, þorskabani, nautatemjari. Gísli Sigurðsson segir frá. Sunnudagur - fylgirti Þjóðviljans. 26. september 1965 (Sjá hér neðar undir „Tengt efni á öðrum vefjum“).

Textinn hér ofar er inngangur að viðtali víð Gísla sem er merkileg heimild um lífsbaráttuna á fyrstu áratugum 20. aldar. Viðtalið dregur ekki síður mynd af manninn Gísla. Hann er á einum stað spurður um átrúnað á „dularfull fyrirbæri“. Svarið vitnar um lífsviðhorf Gísla og rímar vel við það sem fram kemur hér neðar í tengslum við útvarpsumsvif hans á Vífilsstöðum:

– Ert þú mjög trúaður á „dularfull fyrirbæri“?
– Nei, ég trúi ekki á nein hindurvitni – og heldur ekki á neitt framhaldslíf. Tilgangur þessa lífs og innihald þess er að láta gott af sér leiða eftir því sem maður getur.

Laust eftir aldamótin 2000 höfðu afkomendur Gísla samband við aðstandendur Tónlistarsafns Íslands og vildi koma af sér plötusafni sem verið hafði uppistaðan í safni útvarpsstöðvar sem Gísli rak á berklahælinu Vífilsstöðum frá 1942 og fram undir 1960. Í viðtalinu við Gísla sem vitnað er til hér neðar kemur fram að plötur hans hafi alls verið um 6000. Safnið var yfirfarið og skráð í Tónlistarsafni og síðar fært undir Landsbókasafn-Háskólabókasafn þegar Tónlistarsafn færðist þangað 2017.

Hér á eftir er gripið niður í viðtalið við Gísla sem birtist í blaðinu Sunnudagur - fylgirit Þjóðviljans. 3. október 1965 (Sjá hér neðar undir „Tengt efni á öðrum vefjum“):

– Hvernig stóð á því, Gísli, að þú fórst að útvarpa á Vífilsstöðum?
– Það atvikaðist nú þannig að ég var utangarðs við aðalskemmtun manna hér þá; ég spilaði hvorki né tefldi, en það var aðalskemmtun manna hér; sumir sátu við tafl eða spil ár eftir ár hér — og gera enn. En slíkt gleður ekkert aðra, aðeins þá sem eru þátttakendur í því.
   Þá hugsaði ég sem svo að rétt væri að fá sér fón (grammófón) og nokkrar hljómplötur. Ég hugsaði að ég gæti slegið þrjár flugur í einu höggi – í hljómplötu kemur fram a.m.k. þrennt: ljóðið, lagið og söngvarinn, auk undirleikarans – og svo getur verið að fleiri hafi gaman af.
   Svo er ég staddur á Kaffi París á Skólavörðustígnum (mun vera sami staðurinn og Vega) að fá mér kaffi. Þá kemur þar inn maður sem ég kannaðist við, prentari í Félagsprentsmiðjunni, sænskur að uppruna. Hann býður mér upp til sín, bjó uppi í húsinu, og þá berst í tal að mig langi til þess að fá ferðagrammófón. Kona var þarna stödd er segir þá að hún vilji einmitt selja fón og nokkrar plötur sem hún eigi. Ég spyr hve margar plöturnar séu og hvað þetta eigi að kosta. Hún segir að hvorttveggja kosti 10 krónur.
– Á hvaða ári var þetta?
– Það mun hafa verið árið 1941 eða 42. Ég svara konunni að ég vilji kaupa af henni fóninn. Svo förum við heim til hennar, en með mér var maður. Konan býður okkur kaffi – og ég þygg ævinlega kaffi; og konan gefur okkur kaffi og með því og afhendir mér svo fóninn og plöturnar, ég borga henni 10 kr. þakka og kveð.
   Nú var ég orðinn eigandi grammófóns! Svo fer ég af stað til Vífilsstaða og set fóninn í gang um leið og ég er kominn uppeftir.
   Fyrsta platan sem ég hlustaði á var: Taktu sorg mína svala haf, – það fannst mér skemmtileg tilviljun og eiga vel við. Þetta voru allt afbragðsplötur, en allar svolítið slitnar.
   Svo fór ég að spila meira, og maður kom til að hlusta, og fleiri og fleiri komu til að fá að heyra lag.
– En hvernig datt þér í hug að fara að útvarpa?
– Stofufélagi minn hét Gunnar Rasmundsen, hann var nokkuð heima í útvarpstækni og hann segir einu sinni: Nú þyrfti maður að fá sér tæki til að leika í gegnum. Ég át það eftir honum, vissi ekkert um útvarpstækni.
   Einhverstaðar fékk ég svo eitt af litlu Philipstækjunum, sem hafði tengingu fyrir fón og hátalara. Svo lékum við í gegnum þetta tæki og urðum að handsnúa grammófóninum við lok hverrar plötu. Þannig gekk þetta í nokkurn tíma, en svo segir herbergisfélagi minn:
– Nú sendum við í Hælið!
   Hann tekur síðan vír og tengir við útvarpskerfið i hælinu. Svo byrjum við að leika. Vitanlega tókum við heyrnartæki okkar til að hlusta, til að vita hvort það heyrðist nokkurt bofs. Þá kom það upp úr kafinu að þetta heyrðist prýðilega.
   Fólkið fór svo að brjóta heilann um hvaðan þessi musik kæmi.
– Hélt það ekki að hún væri frá Ríkisútvarpinu?
– Nei, það var ekki útvarpstími – þá var ekki útvarpað nema lítinn hluta af deginum og útvarpi lauk kl. 10 á kvöldin.
   Það spurðist fljótlega hvaðan þetta útvarp kæmi – og svo fór fólkið að biðja mig að leika – og ég gerði það. ...

Þegar viðtalið er tekið áætlar Gísli að plötusafni hans telji um 6000 eintök. Undir lok viðtalsins er Gísli spurður hvernig hann hafi eignast allar þessar plötur:

– En hvernig fórstu að því að eignast allar þessar plötur?
– Ég hafði þrek til að vinna mér inn peninga hér, og ég lagði kaupið í þetta, af því að ég hafði ánægju af því, og sjúklingarnir engu minni ánægju en ég.
   Ég stend líka í þakkarskuld við fólkið í Fálkanum. Ég kom fyrst í Fálkann þannig að það vissi engin deili á mér. Þá var ég svo heppinn að hitta ágæta stúlku sem sýndi mér hlýhug og ágæta fyrirgreiðslu, seinna kom svo önnur stúlka, ungfrú Ásta Smith og tók mér með sérstakri lipurð, – og ekki má gleyma vini mínum Ólafi, sem tók á móti mér sem væri ég bróðir hans. Og auðvitað á Haraldur forstjóri sinn þátt í þessu. Vitanlega hefði þetta aldrei orðið svona stórt plötusafn án hans samþykkis, því ég hef oft fengið lánaðar stórar upphæðir í Fálkanum. Þakka ég þeim fyrir alla þá fyrirgreiðslu sem ég fékk í Fálkanum.
– Það myndi einhverjum, á þessum síðustu peningadýrkunardögum, þykja það harla vafasöm fjárfesting að verja orku sinni og fé í það eitt að gleðja aðra.
– Já, en það finnst mér sjálfsagt. Það er ekki nóg að gleðja sjálfan sig. Tilgangur lífsins er að gleðja aðra, ef maður hefur nokkur tök á því.
– Og nú, þegar ég er sjötugur og lít yfir Vífilsstaði og hugsa um hugsjónamennina sem byggðu þá, þá hygg ég að það sé spurning hvort þjóðin hefði verið til — a.m.k. með þeim þrótti sem hún nú býr yfir — ef þessara manna hefði ekki notið við og Vífilsstaðir verið byggðir, því berklarnir voru á þeim tíma um það bil að hafa yfirhöndina. Hingað kom fyrst fjöldi manna á öllum aldri til þess eins að deyja. En sem betur fer hefur fleirum batnað en dáið hafa hér — og ég er einn í þeirra hópi.
   Hreint að segja og skrifa þá lít ég á Vífilsstaði sem helgan stað og blessa alla þá menn, bæði háa og lága, sem hingað hafa komið til góðs, alla sem hér hafa orðið þjóðinni til blessunar.
   Senn fer að styttast í dvöl minni — og þá er bezt að kveðja með einni vísu eftir Stefán frá Hvítadal:
Brjóst mitt þraut á stormsins stig,
streymir vökvinn rauði.
Eldar falla yfir mig.
— Ertu þarna, dauði?

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bílstjóri, verkamaður og útvarpsstjóri

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 18.09.2020