Gunnsteinn Eyjólfsson 01.04.1866-03.03.1910

<p>Gunnsteinn Eyjólfsson var fæddur á Unaósi við Héraðsflóa í Norður-Múlasýslu 1. apríl 1866. Foreldrar hans voru Eyjólfur Magnússon og sinni kona hans Vilborg Jónsdóttir, gáfað bændafólk í ættir fram. Tíu ára fluttist hann vestur um haf með foreldrum sínum, er námu land nyrst í Nýa-Islandi og nefndu bæ sinn Unaland. Engir voru þar þá skólar eða önnur mentunar skilyrði. Er því lítt skiljanlegt hvernig Gunnsteinn varð á fáum árum vel að sér, ekki aðeins í ensku og íslensku heldur og í almennum fræðum og sönglist. Segir sagan, að fyrsta hljóðfæri, sem hann náði í, hafi verið Langspil. Ungur eignaðist hann stofuorgel og kendi seér sjálfum að mestu að leika á það. Hann stóð snemma í broddi fylkingar í bygð sinni í leiklist og söngment. Hann skrifaði mikið um almenn mál, og auk þess merkilegar smásögur (sjá ritgjörð St. E. hér að framan). Þar við bættist erfiður búskapur, verslun, póstafgreiðsla, sveitarstjórnarstörf og margt fleira. Hann kvæntist ungur Guðfinnu Eiríksdóttur frá Heiðarseli í Hróarstungu, og áttu þau saman 9 börn, sem öll eru á lífi og mörg hafa fengið söngmentun að meira eða minna leyti. En heilsan var ekki sterk og henni að líkindum ofboðið; og hinn 3. mars 1910 andaðisi hann í Roehester, Minn., eftir holskurð, þá tæpra 44 ára.</p> <p>Eigi er það nú ljóst, hve snemma Gunnsteinn fór að búa til sönglög. En fyrsta vesturíslenskt sönglag sem vissa er fyrir, var lag hans í Sunnanfara um eða eftir 1890, við nýort kvæði Þorst. Erlingssonar, "Mig hryggir svo margt." Mun honum hafa þótt raddskipun sinni ábótavant og bað ritstjórann að láta söngfróðan mann færa til betri vegar. Við háskólann í Khöfn var þá ungur stúdent, Árni Beinteinn Gíslason, sem skrifaði lög í stíl Nordraaks, en dó ungur. Hann raddsetti lagið mjög einstrengingslega, og var Gunnsteinn sáróánægður með það, og einsetti sér þá strax að klífa þrítugan hamarinn til að afla ser þekkingar í tónfræði, svo hann þyrfti ekki að leita á náðir annara. Löngu seinna raddsetti hann þetta lag bæði fyrir blandaðar raddir og til einsöngs með enskri þýðingu kvæðisins eftir Meistara Eirík Magnússon. Stundaði hann nú af kappi nám í raddskipunarfræði heima hjá sér með aðstoð bréflegrar kenslu merkra tónfræðinga í Bandaríkjunum, og orkti jafnframt allmörg lög við enska og íslenska texta – auðvitað í hjáverkum sínum.</p> <p>Það af lögum Gunnsteins, sem varðveitst hefir eða verið prentað, eru þessi:</p> <ol> <li>Mig hryggir svo margt. – Þ. E., (Sunnanfari 1891?) [III. 2. 1893]. <br>It grieves me – sama lag í tvenskonar raddsetningu. <li>Eg uni á flughröðu fleyi – H. Hafstein, (Sunnarfari 1894). <li>Rock of Ages og <li>Nearer my God to thee, bæði í ensku kirkjuriti, Chicago, 1897. <li>Blunda þú, blunda. Vald. Briem (Eimreið 1898). <li>Tvö Vestur-íslensk sönglög: Sólu særinn skýlir – Stgr. Thorsteinsson og <li>Sumarnótt á heiði – Jón Ólafsson, Khöfn. 1898. <li>His Mother’s his Sweetheart – Montreal 1901. <li>Um nótt - E. S. (Freyja 1901). <li>Morgunbæn – Har. Sigurgeirsson (Dvöl 1902). <li>Gleðileg Jól - (Freyja 1903). <li>Já, ver elskum Isafoldu – Jón Ólafsson (Frækorn 1905) Verðlaunalag á Íslendingadegi. <li>Heiðbláin – Indriði Einarsson (Eimreið 1913). <li>Morgunbæn – Sigurbjörn Johannsson, óprentað. <li>Kom þú mín kæra; og veit eg engin deili á því. </ol> <p>Númer 13. er áreiðanlega síðasta lag Gunnsteins; Sendi hann mér það í handriti tveim vikum áður en hann dó, þá nýlega skrifað. Hann hafði og haft í smíðum tónverk um Jósef í Egyptalandi, sem enginn veit nú hvað af hefir orðið. Þá bjó hann og undir prentun allstóra söngvabók um eða eftir aldamótin, og voru í henni tvö eða fleiri frumsamin lög. Handritið glataðist, að því er haldið var, úr vörslum íslensks námsmanns í Kaupmannahöfn, sem hafði verið borgað fyrir að sjá um útgáfuna. Dætur Gunnsteins tvær létu nú á síðari árum fjölrita flest þessi lög í eina bók.</p> <p>Lög Gunnsteins eru yfirleitt þýð og björt, þó með draumkendum þunglyndisblæ. Í því sambandi minnist eg einkum 1. 5.-7. og 13. Hann fell frá á besta skeiði, þegar hagur hans var að rýmka, og er ómögulegt að segja, hve miklu hann hefði afkastað á þessu sviði og öðrum, ef heilsa og líf hefði enst. Til samanburðar má benda á vin hans og jafnaldra, Jón Friðfinnsson, sem samdi öll sín bestu tónverk og lög eftir daga Gunnsteins.</p> <p align="right"><a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5685826">Nokkur Vestur-Íslensk tónskáld.</a> Gísli Jónsson. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga. 1. janúar 1950, bls. 71.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.11.2013