<p><strong>Foreldrar:</strong> Ólafur Björnsson, hagfræðingur, ritstjóri Ísafoldar og forstjóri Ísafoldarprentsmiðju í Reykjavík, f. 14. jan. 1884 í Reykjavík, d. 10. júní 1919, og k. h. Borghildur Pétursdóttir Thorsteinsson, f 13. des. 1885 á Bíldudal, d. 9. nóv. 1967.</p>
<p><strong>Námsferill:</strong> Lauk námi frá Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1933; hóf fiðlunám sjö ára gamall hjá Þórarni Guðmundssyni og nam hjá honum í fimm ár; stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1930-1931 og í Vín í Austurríki 1931-1932 hjá K. Heller, sem verið hafði kennari hans í Tónlistarskólanum og stundaði ennfremur nám við Tónlistarháskólann þar í borg; nam aftur við Tónlistarskólann í Reykjavík 1932 og lauk burtfararprófi þaðan 1934; hlaut Diplom frá Tónlistarháskólann í Vín 1939 að loknu fimm ára námi þar og bauðst starf eftir það við Wiener Philharmoniker en seinni heimsstyrjöldin kom í veg fyrir að hann gæti þegið það boð; stundaði ennfremur nám og tónlistarstörf í Bandaríkjunum hjá Adolf Busch 1947-1948.</p>
<p><strong>Starfsferill:</strong> Var konsertmeistari í Hljómsveit Reykjavíkur 1939-1950 og í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-1972; var fiðluleikari og -kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-1975; veitti strengjadeild Tónlistarskólans í Reykjavík forstöðu 1946-1975.</p>
<p align="right">Sjá nánar: Sinfóníuhljómsveit Íslands – saga og stéttartal, bls. 178. Sögusteinn 2000.</p>
<p>Björn var í hóp fjögurra nemenda sem fyrstir luku burtfararprófi frá Tónlistarskólnum í Reykjavík 1934. Hinir voru: Helga Guðjónsdóttir Laxness, Katrín Dalhoff Bjarnadóttir og Margrét Eiríksdóttir, allar á píanó. Prófdómari var Emil Thoroddsen.</p>
<p>Í minningargrein um Björn sagði Guðný Guðmundsdóttir konstertmeistari: „Björn Ólafsson var meðal þeirra fáu einstaklinga innlendra og erlendra sem lyftu Grettistaki í tónlistarmálum okkar Íslendinga. Hann var í hópi þeirra sem plægðu akurinn fyrir komandi kynslóðir. Starf hans bar ríkulegan ávöxt.“</p>
Staðir
Hópar
Skjöl
Tengt efni á öðrum vefjum