Selma Guðmundsdóttir 26.10.1950-

<p>Selma hóf tónlistarnám á Ísafirði og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún hjá Hans Leygraf við Mozarteum í Salzburg og Tónlistarháskólann í Hannover (námsstyrkur frá þýska ríkinu, DAAD). Auk þess hefur hún sótt námskeið víða erlendis, m.a. hjá Pierre Sancan í Frakklandi og Frantisek Rauch í Tékkóslóvakíu. Selma bjó í 5 ár í Stokkhólmi og starfaði þá m.a. við Tónlistarskóla Sænska útvarpsins.</p> <p>Selma hefur haldið fjölda einleikstónleika bæði á Íslandi og erlendis, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Þrándheimi og komið margsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi. Hún hefur starfað mikið með öðrum hljóðfæraleikurum og söngvurum og oft leikið með Kammersveit Reykjavíkur, meðal annars á Listahátíð í Bergen og á tónleikaferð um Bretland. Hún hefur leikið reglulega með Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara frá 1986, til að mynda á tónlistarhátíð ungra einleikara í Helsinki, í tónleikaferð um Þýskaland og Litháen, í Skotlandi og í Carnegie Hall í New York. Sumarið 2011 héldu þær upp á 25 ára samstarfsafmæli með tónleikaferð til Kína þar sem þær léku í 8 borgum. Selma og Sigrún hafa gefið út tvær geislaplötur, Cantabile (1991) og Ljúflingslög (1992).</p> <p>Selma hefur leikið einleiksverk fyrir píanó inn á geislaplötu (1992), leikur með Áshildi Haraldsdóttur flautuleikara á geislaplötunni Miniatures (1995), Kammersveit Reykjavíkur á geislaplötunni Kvöldstund með Mozart og Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara á plötunni Stemma með verkum Jórunnar Viðar. Samstarf við Gunnar Kvaran sellóleikara hófst 1995 og hafa þau haldið tónleika víða, meðal annars leikið um 200 tónleika fyrir skólabörn. Þau hafa gefið út tvær geislaplötur Elegíu (1996) og Gunnar og Selma (2004) með rómantískum verkum fyrir selló og píanó. Í júní 2012 héldu þau Gunnar og Selma í tónleikaferð til Kína þar sem þau héldu tónleika í Peking, Shanghai, Yangzhou og Hangzhou. Selma hefur einnig starfað með norska tenórsöngvaranum Harald Björköy á síðustu árum og haldið með honum tónleika í Noregi og á Íslandi. Einnig hefur hún leikið fjórhent á píanó með ísraelsk/rússneska píanistanum Albert Mamriev.</p> <p>Selma starfar sem píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og meðleikari/adjunkt við Listaháskóla Íslands. Hún var einn af stofnendum Richard Wagner félagsins á Íslandi árið 1995 og hefur verið formaður þess frá upphafi.</p> <p align="right">Vefur Tónlistarskólans í Reykjavík 2013.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari og píanóleikari
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.11.2013